Nýr námsvefur skólans kynntur á menntadegi BSRB (upptaka)

by | 25. mar, 2021 | Almennar fréttir

Menntadagur BSRB var haldinn í gær undir yfirskriftinni Til móts við ný tækfæri. Dagskráin var fjölbreytt en áskoranir í mennta- og fræðslumálum launafólks voru rædd út frá fjórðu ðnbyltingunni, gervigreind, stefnumótun stjórnvalda og möguleikum í innra starfi í breyttum heimi. Meðal erinda var umfjöllun um nýjan námsvef Félgasmálaskólans, LearnCove, og þær breytingar sem hann býður í nálgun að trúnaðarmannafræðslu og í raun allri fræðslu skólans. 

Breytt samfélag kallar á nýja nálgun á nám og kennslu og ný tækni gerir hana mögulega. Það eru fjölmörg tækifæri sem felast í nýrri nálgun að trúnaðarmannafræðslunni, og allri fræðslu Félagsmálaskólans, fyrir trúnaðarmenn, almenna félagsmenn og ekki síst félögin sjálf.

Um síðustu áramót var LearnCove nýr námsvefur eða námsumhverfi tekið í gagnið hjá Félagsmálaskólanum. Nýja kerfið auðveldar fjölbreytta og skemmtilega framsetningu náms sem verður góð viðbót fyrir alla.  Enn um sinn er í raun aðeins að nýta kerfið sem skráningarkerfi, enda töluverð vinna fólgin í því að snúa öllu námsefni á þann veg að nýjar aðferðir henti til kennslu en við munum með haustinu bjóða upp á nýja og spennandi framsetningu náms hjá Félagsmálaskólans.

Nýtt fyrirkomulag námskeiða verður hugsað sem blanda af stað- og fjarnámi, enda hefur hvort um sig ákveðna kosti og ákveðna galla en með því að blanda þessum „kerfum“ er hægt að koma til móts við þarfir mun fleiri einstaklinga og félaga.

Með nýju kerfi og fyrirkomulagi verður möguleiki til sveigjanlegra lausna í trúnaðarmannafræðslu mun meiri. Þá getur trúnaðarmaður, að einhverju leyti, stýrt því hvenær hann sinnir náminu, hvar hann sinnir því og hvað hann nemur hverju sinni. Landfræðileg staðsetning, vaktir og vinnutími munu því ekki hafa eins mikil áhrif og áður.

Kerfið býður einnig að við einstaklingsmiðum námið og að hver og einn geti þannig stýrt sinni leið að lokamarkinu. Þá mætti t.d. hugsa sér að strax og trúnaðarmaður er kjörinn geti hann sótt fyrsta hluta trúnaðarmannanámsins – óháð því hvort einhverjir aðrir séu í sömu stöðu og á sama stað í ferlinu. Þannig þarf ekki lengur að safna í hóp og félög að hópa sig saman til að geta boðið upp á námskeið.

Þá verður einnig möguleiki að hver og einn námsmaður geti t.d. valið hvort hann vilji horfa á myndband til að fræðast um efni, eða lesa texta. Þá verður einnig hægt að hafa ýmsa valmöguleika í verkefnavinnu og verður skemmtilegt að sjá hvernig það mun þróast á næstu misserum. 

Upptökur frá viðburðinum og erindi um LearnCove má nálgast hér