Orðakista ASÍ
Það gleður okkur að segja frá því að ASÍ hefur gefið út nýtt smáforrit, Orðakistu ASÍ, sem er orðasafn ætlað trúnaðarmönnum, starfsfólki og almennum félagsmönnum séttarfélaga. Allt efni er fengið úr kjarasamningum og öðru útgefnu efni sem tengist vinnumarkaði með beinum hætti. Lögð var áhersla á forrit sem væri einfalt og fljótlegt í notkun. Þegar orð er slegið inn birtast allar myndir þess sem finnast í gögnunum, ásamt þýðingu og setningadæmum.
Við hvetjum ykkur til að sækja og skoða appið, en það er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og IOS. Hægt er að sækja það á Google Play Store og App Store Apple.
Markmið forritsins er meðal annars að auðvelda trúnaðarmönnum starf sitt og samskipti við erlent samstarfsfólk. Forritið nýtist þó bæði íslenskum trúnaðarmönnum við að aðstoða starfsfólk af erlendum uppruna sem og öllum félagsmönnum sem ekki eru með íslensku að móðurmáli. Orðakistan nýtist öllum atvinnugreinum þar sem erlent starfsfólk þarf aðstoð við að skilja sértækan orðaforða kjarasamninga og vinnumarkaðar.
Í þessari fyrstu útgáfu er einungis boðið upp á þýðingu af íslensku yfir á ensku. Þróunarvinna mun þó halda áfram og er áformað að einnig verði hægt að þýða af ensku á íslensku og milli pólsku og íslensku í næstu misserum. Verkefnið er unnið í samvinnu við Rit ehf. sem hannar og framleiðir smáforritið.