Þátttakendur Genfarskólans 2022

Genfarskólinn – tveir fulltrúar frá Íslandi

by | 3. maí, 2022 | Almennar fréttir

Að venju á Ísland tvo fulltrúa í Genfarskólanum, þau Stefaníu Jónu Nielsen frá Sameyki og Þór Hinriksson frá Félagi íslenskra rafvirkja.

Í Genfarskólanum, sem er norrænn Lýðháskólanum í Genf, fræðast nemendur um alþjóðamál verkalýðshreyfingarinnar. Skólinn er haldinn í Genf samhliða þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Nemendur kynnast þinghaldinu og starfi stofnunarinnar vel, fá innsýn í alþjóðlegt og norrænt samstarf á vettvangi ILO og geta kynnt sér ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa í tengslum við ILO. Aðild að Genfarskólanum eiga MFA-samböndin í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Undanfarin ár hafa tveir nemendur sótt skólann á hverju ári, einn frá ASÍ og annar frá BSRB. Síðla hvert haust er námið auglýst og opnað fyrir umsóknir.

Þau Stefanía og Þór eru nýlega komin heim eftir vikulangt undirbúnings námskeið í Brussel þar sem þau sóttu fjölda fyrirlestra og kynninga varðandi skólann og ILO. Í byrjun júní munu þau svo halda út aftur og taka þátt í þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Þess má geta að bæði Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB eru fyrrverandi nemendur skólans. Það má því vera ljóst að þátttaka er góður undirbúningur fyrir frekari störf á þessum vettvangi.

Umsóknir í skólann eru auglýstar á hverju hausti og hvetjum við alla áhugasama að fylgjast með og sækja um.

Nánari upplýsingar veitir Bergþóra Guðjónsdóttir – bergthora@asi.is