KONUR LIFA EKKI Á ÞAKKLÆTINU!

by | 23. nóv, 2020 | Almennar fréttir

Á morgun er 24. október. Á þeim degi árið 1975 lögðu íslenskar konur í fyrsta skipti niður vinnu til þess að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra. Síðan þá hafa konur á Íslandi gengið út fimm sinnum, 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. 

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru konur með 25,1% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 6 klukkustundir og 1 mínútu miðað við fullan vinnudag frá klukkan 9 til 17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 15:01.

Af þessu tilefni hafa heildarsamtök launafólks; ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og Kvenréttindafélagið blásið til herferðar til þess að vekja athygli á málstaðnum. Áherslan í ár er á störf þeirra kvenna sem vinna framlínustörf á tímum heimsfaraldurs. Konur lifa ekki á þakklætinu einu saman og því eru settar fram kröfur um að störf kvenna séu metin að verðleikum.

Í sameiginlegri yfirlýsingu þessara og fleiri aðila er þess krafist að:

Störf kvenna séu metin að verðleikum og kjör tryggð.
Kjör starfsfólks í framlínunni í baráttunni við COVID-19 verði tryggð og álagsgreiðslur sanngjarnar
Allar aðgerðir stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna COVID-19 fari í jafnréttismat, svo að tryggt sé að þær gagnist öllum kynjum jafnt.
Grundvallarmannréttindi séu ávallt höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og viðbrögðum við faraldrinum, svo engin þurfi að líða fyrir kyn sitt, uppruna, kynþátt, kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni, kyntjáningu, fötlun, aldur, búsetu, lífsskoðun, félagslega stöðu eða efnahag
Öryggi kvenna á vinnustöðum og á heimilum sé tryggt.
Sköpum saman samfélag í kjölfar COVID-19 sem byggir á jafnrétti. Metum störf kvenna að verðleikum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Kjarajafnrétti STRAX!

Yfirlýsinguna í heild ásamt frekari upplýsingum má nálgast á Kvennafri.is