Námskeið í boði
Fjölbreytt fræðsla
– sérsniðin námskeið, vinnustofur og fjarerindi
Hér má sjá fjölbreytta fræðslu og erindi sem hægt er að laga að þörfum hvers og eins félags. Hvort sem um ræðir starfsfólk, trúnaðarmenn, kjörna fulltrúa eða almenna félagsmenn – þá finnum við lausn sem hentar.
Hvernig virkar þetta?
- Stutt fjarerindi í gegnum Zoom.
- Heimsókn á fræðsludaga eða fundi.
- Vinnustofur eða hefðbundin námskeið.
- Sérsniðin dagskrá byggð á ykkar áherslum.
Þetta yfirlit er ekki tæmandi og ef þú finnið ekki það sem þú leitar að á listanum má hafa samband og við stillum upp dagskrá eftir ykkar þörfum.
Leiðbeinendur eru sérfræðingar úr hópi starfsmanna samtakanna sem tryggir að fræðslan er með beina tengingu við raunverulegt starf og hlutverk stéttarfélaganna.
Við komum til ykkar – eða á skjáinn!
Ábyrgð og hlutverk stjórnarmanna í stéttarfélögum
Fjallað er um skyldur og ábyrgð stjórnarmanna í stéttarfélögum, samkvæmt lögum og starfsvenjum. Farið er yfir fundarsköp og hlutverk stjórna sem hluta af faglegri og traustri stjórnsýslu. Þetta er námskeið sem hentar jafnt nýjum sem og reynslumeiri stjórnarmönnum sem vilja skerpa á lykilhlutverki sínu.
Evrópskur vinnumarkaður og nýjar tilskipanir
Hvað er að gerast á vettvangi Evrópu? Farið er yfir helstu stefnumál og nýjar tilskipanir sem eru komnar eða að koma — og hvaða áhrif þær kunna að hafa á íslenskan vinnumarkað. Einföld og skýr yfirferð fyrir forvitna trúnaðarmenn og starfsfólk stéttarfélaga.
Fundarsköp og fundargerðir – traust stjórnunarverkfæri
Á þessu hagnýta námskeiði er farið yfir helstu atriði fundarskapa, hlutverk fundarstjóra og hvernig skrifa á skýrar og faglegar fundargerðir. Námskeiðið hentar sérstaklega stjórnarmönnum og trúnaðarfólki sem leiðir fundi eða tekur virkan þátt í stjórnun og skipulagi félagsstarfs.
Gervigreind og persónuvernd á vinnumarkaði
Hvað þarf vinnumarkaðurinn að vita um notkun gervigreindar og meðferð persónuupplýsinga? Rætt er um tækifæri og áhættu, og farið yfir grundvallaratriði í persónuvernd — sérstaklega í ljósi nýrra tækniþróunar á vinnustöðum.
Helstu vinnumarkaðssjóðir: Atvinnuleysistryggingar, Ábyrgðasjóður launa og Fæðingarorlofssjóður
Yfirlit yfir helstu öryggisnet launafólks við atvinnumissi, við töku fæðingarorlofs eða gjaldþrot fyrirtækis. Farið verður yfir helstu lög og reglur, praktíska hluti í framkvæmd og vafamál sem upp geta komið. Þá verður farið yfir feril hvers kerfis fyrir sig og hvernig stéttarfélög geta aðstoðað félagsfólk ef upp koma vafamál.
Jafnrétti og inngilding
Vinnustofa sem tekur á jafnréttismálum í víðu samhengi: kynjajafnrétti, réttindi innflytjenda, fjölmenningu og mannréttindum. Þátttakendur skoða eigin viðhorf og fá verkfæri til að stuðla að auknu jafnrétti og valdeflingu í samfélaginu og á vinnustað. Unnið er með raunveruleg dæmi og verkefni í hópum.
Keðjuábyrgð – praktísk nálgun
Hvað er keðjuábyrgð og hvernig virkar hún í raun? Farið er yfir praktísk dæmi, ferla og leiðir til að tryggja að réttindi launafólks glatist ekki í flóknum verkkeðjum og undirverktöku.
Hentar sérstaklega trúnaðarmönnum í byggingariðnaði og öðrum greinum sem byggja á keðjum, þar sem eru útsendir starfsmenn eða starfsmannaleigur.
Launakröfur – lagalegur ferill
Hvað tekur við eftir að kjarasamningsbrot er sent til lögmanns? Námskeiðið veitir innsýn í lagalegt ferli launamála — frá fyrstu kröfu til lokauppgjörs. Gott fyrir alla sem vilja skilja hvernig mál þróast frá upphafi til enda og hvernig verkalýðshreyfingin beitir sér við að tryggja kjarabundin réttindi fólks.
Menningarnæmi á vinnumarkaði – Ísland í hnotskurn
Sérsniðið námskeið fyrir innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði. Fjallað er um hvernig íslenskt vinnumenning virkar, hver réttindi og skyldur eru á vinnumarkaði, hvernig samskipti fara fram og við hverju megi búast í daglegu starfi. Unnið er með raunveruleg dæmi og opið samtal.
Ræðumennska og framkoma – flytja erindi og skila efni
Farið er í undirstöðuatriði áhrifaríkrar framkomu og flutning erinda. Þátttakendur læra að nota rökhugsun, tilfinningar og trúverðugleika (logos, pathos, ethos) til að ná betur til áheyrenda.
Samningagerð – undirbúningur fyrir kjarasamninga
Námskeið fyrir samninganefndir stéttarfélaga sem eru að undirbúa sig fyrir kjarasamningalotu. Fjallað er um hlutverk samninganefndar, undirbúningsvinnu, greiningu gagna og hagsmuna, mótun krafna og hvernig hægt er að meta mótkröfur atvinnurekenda.
Einnig er farið yfir samskipti innan nefndar og við aðra hagsmunaaðila, ásamt því að skoða áhrifaríkar samningatækni og stefnumótun. Markmiðið er að efla faglega og markvissa nálgun að samningagerð og tryggja betri árangur í kjarabaráttu.
Samskiptahæfni og fagmennska í samskiptum
Áhersla er lögð á uppbyggileg og fagleg samskipti í starfi, hvort sem um er að ræða daglegt samstarf eða áskoranir á vinnustað. Fjallað er um samskiptareglur, mikilvægi þess að ræða málefni en ekki einstaklinga, og hvernig skapa má traust og góðan starfsanda.
Starfslok, uppsagnir og brotthvarf úr starfi
Réttarstaða fólks við starfslok — hvort sem um ræðir uppsögn, riftun, starfslok vegna aldurs eða heilsubrests. Farið yfir hvernig réttindi eru tryggð og hvernig hægt er að styðja félagsmenn og tryggja faglega úrlausn eftir atvikum og aðstæðum.
Uppbygging íslensks vinnumarkaðar – aðilar og áhrif
Námskeiðið veitir yfirsýn yfir uppbyggingu íslensks vinnumarkaðar, helstu leikendur og hvernig samskipti og samningar fara fram milli aðila vinnumarkaðarins. Fjallað er um hlutverk stéttarfélaga, atvinnurekenda og hins opinbera.
Hentar vel sem inngangur fyrir nýtt starfsfólk stéttarfélaga og trúnaðarmenn.
Veikindi, vinnuslys og vottorð – sönnunarbyrði og réttindi
Hvað gildir þegar veikindi, slys eða önnur veikindatengd fjarvera kemur upp? Hver ber ábyrgð á að leggja fram vottorð og hvaða reglur gilda um greiðslur? Þá er einnig farið yfir sönnunarbyrði og réttaráhrif.
Vinnustaðasamningar byggðir á 5. kafla kjarasamninga á almennum vinnumarkaði
Farið er yfir heimildir til að gera sérstaka vinnustaðasamninga á grundvelli 5. kafla kjarasamninga. Skoðað hvað þarf að hafa í huga við gerð slíkra samninga, tengingu við önnur ákvæði kjarasamninga og lágmarksréttindi.
Gott yfirlit fyrir kjaramálafulltrúa, trúnaðarmenn og alla þá sem leiða vinnustaðarsamstarf.