GENFARSKÓLINN OG ILO

Genfarskólinn

Í Norræna Lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum, fræðast nemendur um alþjóðamál verkalýðshreyfingarinnar. Skólinn er haldinn í Genf samhliða þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Nemendur kynnast þinghaldinu og starfi stofnunarinnar vel, fá innsýn í alþjóðlegt og norrænt samstarf á vettvangi ILO og geta kynnt sér ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa í tengslum við ILO. Aðild að Genfarskólanum eiga MFA-samböndin í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Íslandi. Undanfarin ár hafa tveir nemendur sótt skólann á hverju ári, einn frá ASÍ og annar frá BSRB. Síðla hvert haust er námið auglýst og opnað fyrir umsóknir.

Alþjóðavinnumálastofnun – ILO

Ísland tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði vinnumála á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization) og í tengslum við aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem reglur Evrópusambandsins á sviði vinnumála eru hluti af EES-samningnum. 

Af aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni leiðir sú skylda stjórnvalds aðildarríkis að leggja fyrir löggjafarsamkomu ríkisins gerðir, alþjóðasamþykktir og tilmæli, sem afgreiddar eru á Alþjóðavinnumálaþinginu. Á Íslandi er þetta gert með skýrslu ráðherra til Alþingis um Alþjóðavinnumálaþingið.

Á vef Stjórnarráðsins má nálgast frekari upplýsingar um Alþjóðavinnumálastofnunina, samþykktir hennar og skýrslur ráðherra til Alþingis um Alþjóðavinnumálaþingið. 

Aðþjóðavinnumálastofnunin – ILO
Samþykktir ILO
Skýrslur ráðherra v/ILO