HANDBÓK TRÚNAÐARMANNSINS

KAFLI 5

Vinnuvernd

5.1 Öryggistrúnaðarmenn
5.2 Vinnuvernd
5.3 Skyldur og ábyrgð
5.4 Þekking og þjálfun
5.5 Vinnan og vinnustaðurinn
5.6 Áhættumat og heilsuvernd
5.7 Skráning og tilkynningar
5.8 Sérreglur
5.9 Hvíldartími, frídagar og hámarksvinnutími
5.10 Vinna barna og unglinga


 5.1     Öryggistrúnaðarmenn

Í fyrirtækjum með 1 – 9 starfsmenn skal atvinnurekandi og/eða verkstjóri stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað í nánu samstarfi við starfsmenn og félagslegan trúnaðarmann þeirra.

Í fyrirtækjum með 10 starfsmenn eða fleiri skal atvinnurekandi tilnefna einn fulltrúa – öryggisvörð – og starfsmenn tilnefna einn úr sínum hópi – öryggistrúnaðarmann- sem í sameiningu fylgjast með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað séu í samræmi við lög og reglur. Í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfsmenn skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa tvo fulltrúa úr sínum hópi og atvinnurekandi tilnefnir tvo. Öryggisnefndin skipuleggur vinnuverndarstarf innan fyrirtækis, annast fræðslu starfsmanna um vinnuvernd og fylgist með því að vinnuverndarstarf skili tilætluðum árangri. Atvinnurekandi skal hafa samráð og samvinnu við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann/öryggisnefnd um vinnuverndarstarfið og gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði. Þar sem slíkir aðilar eru ekki fyrir hendi, vegna smæðar fyrirtækis, skal ávallt hafa samráð og samvinnu við starfsmenn. Starfsmenn Vinnueftirlitsins skulu í eftirlitsferðum sínum hafa samband við atvinnurekanda eða fulltrúa hans, fulltrúa starfsmanna og öryggisnefndir þar sem þær eru starfandi. Öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd njóta lögbundinnar verndar í starfi til jafns við félagslega trúnaðarmenn. Óheimilt er að segja öryggistrúnaðarmönnum og fulltrúum starfsmanna í öryggisnefnd upp störfum vegna starfa þeirra sem öryggistrúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn hátt gjalda þess að þeir hafa verið kjörnir til þeirra starfa.

5.1.1       Hlutverk og réttindi öryggistrúnaðarmanna

Atvinnurekandi skal hafa samráð og samvinnu við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann/öryggisnefnd um vinnuverndarstarfið og gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum. Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir skulu vinna að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum fyrirtækisins og fylgjast með því að ráðstafanir á þessu sviði komið að tilætluðum notum. Skyldur öryggistrúnaðarmanna hafa ekki áhrif á ábyrgð atvinnurekanda skv. lögum. Öryggistrúnaðarmenn skulu fá hæfilegan tíma miðað við verkefna­svið sitt til að gegna skyldum sínum við eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, án þess að tapa tekjum. Atvinnurekandi skal sjá um að öryggis­trúnaðarmenn fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins skulu í eftirlitsferðum sínum hafa samband við framangreinda aðila. Atvinnurekandi skal hafa samráð og samvinnu við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann/öryggisnefnd um vinnuverndarstarfið og gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum.

Atvinnurekendum og umbjóðendum þeirra er óheimilt að segja öryggistrúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem öryggistrúnaðar­manna eða láta þá á nokkurn hátt gjalda þess að þeir hafa verið kjörnir til þeirra starfa.

5.1.2       Kosning öryggistrúnaðarmanna

Um kosningu, hlutverk og verkefni öryggistrúnaðarmanna er fjallað í reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs í vinnustöðum nr. 920 frá árinu 2006.

Kosning öryggistrúnaðarmanns skal fara fram með skriflegri atkvæða­greiðslu sem standa skal yfir a.m.k. einn vinnudag, eða á starfsmannafundi sem hefur verið boðaður með að minnsta kosti tveggja sólarhringa fyrir­vara. Fari kosningin fram á starfsmannafundi er mikilvægt að fram komi í fundarboði hvert tilefnið er.

Á vinnustöðum þar sem eru einn eða fleiri félagslegir trúnaðarmenn, skulu þeir skipuleggja og standa fyrir kosningu öryggistrúnaðarmanna. Á vinnustöðum þar sem ekki er félagslegur trúnaðarmaður, skulu starfsmenn leita aðstoðar viðkomandi stéttarfélags/stéttarfélaga vegna þessara kosninga.

5.1.3       Kosningaréttur og kjörgengi

Kosningarétt hafa allir starfsmenn fyrirtækisins, aðrir en stjórn­endur, án tillits til ráðningartíma eða starfshlutfalls.

Kjörgengir eru allir starfsmenn, aðrir en stjórnendur. Æskilegt að sá sem gefur kost á sér sem öryggistrúnaðarmaður hafi unnið að minnsta kosti 1 ár í fyrir­tækinu og hafi í daglegu starfi sínu yfirsýn yfir sem mestan hluta starfseminnar og/eða sé til staðar eins mikinn hluta vinnutímans og kostur er.

5.1.4       Kjörtímabil

Kjörtímabil öryggistrúnaðarmanna skal að jafnaði vera tvö ár.

5.1.5       Tilkynning

Atvinnurekandi tilkynnir Vinnu­eftirliti ríkisins um þá sem tilnefndir eru sem öryggisverðir og sem kjörnir eru öryggistrúnaðarmenn. Trúnaðar­menn stéttarfélaga/þeir sem undirbúa kosningu öryggistrúnaðarmanna til­kynna stéttar­félögum um þá sem kjörnir eru.


 5.2     Vinnuvernd

Stéttarfélög láta sig vinnuvernd miklu varða því líðan og öryggi félagsmanna þeirra er þeim mikilvægt þótt þau beri ekki formlega ábyrgð á aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustöðum. Þessi bæklingur fjallar um öryggi, aðbúnað og hollustuhætti á vinnustað, ábyrgð atvinnurekenda og skyldur þeirra en einnig ábyrgð starfsmanna. Hann á að gefa yfirlit um þau atriði sem þarf að hafa í huga varðandi vinnuvernd á vinnustöðum.

Grundvallarreglur um öryggi, aðbúnað og vinnuvernd er að finna í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, vinnuverndarlögunum, með síðari breytingum. Auk þess eru í gildi fjölmargar reglugerðir og reglur um einstaka þætti vinnuverndar.

Vinnuverndarreglur hér á landi byggja að stærstum hluta á evrópskum og norrænum reglum um sama efni.

5.2.1       Markmið og leiðir vinnuverndar

Með lögum og reglum um vinnuvernd er leitast við að:

 • Tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu
 • Tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál.

Markmið vinnuverndarstarfs er að stuðla að heilbrigði og öryggi starfsmanna og koma í veg fyrir heilsutjón þeirra, bæði andlegt og líkamlegt sem aðstæður á vinnustað geta skapað. Það á við um aðbúnað og skipulag á vinnustað, vinnuna sjálfa og skipulag hennar. Atvinnurekendur bera frumábyrgð á öryggi og heilbrigði á vinnustað. Öflugt og árangursríkt vinnuverndarstarf byggir jafnframt á samstarfi atvinnurekenda og fulltrúa þeirra, öryggistrúnaðarmanna og starfsmanna allra. Kerfisbundið vinnuverndarstarf í fyrirtækjum sem grundvallast á skyldum atvinnurekenda til að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er mikilvægur þáttur í árangursríku vinnuverndarstarfi. Áætlunin skal fela í sér mat á áhættu, forvarnir og áætlanir um heilsuvernd starfsmanna.

5.2.2       Vinnuverndarstarf í fyrirtækjum

Vinnuvernd er sameiginlegt viðfangsefni atvinnurekenda og starfsmanna. Mikilvæg forsenda árangursríks vinnuverndarstarfs í fyrirtækjum er samvinna og samstarf atvinnurekenda og starfsmanna og trúnaðarmanna þeirra. Lagalegar skyldur atvinnurekenda eru skýrar og ótvíræðar. Jafnframt er þátttaka starfsmanna og fulltrúa þeirra í vinnuverndarstarfi mikilvæg til að tryggja góðan árangur þess. Þannig skipta viðhorf starfsmanna, umgengni þeirra um vinnustaðinn og samskipti innbyrðis miklu um það hvernig til tekst.


 5.3     Skyldur og ábyrgð

Bæði atvinnurekendur og starfsmenn hafa skyldum að gegna svo vinnuverndarstarf verði árangursríkt. Það er mikilvægt að skilningur og gott samstarf sé á milli atvinnurekenda og starfsmanna um vinnuvernd því má treysta því að vinnuvernd og öryggi starfsmanna er tryggara .

5.3.1       Skyldur atvinnurekenda

Skyldur atvinnurekenda eru m.a. eftirfarandi:

 • Atvinnurekandi skal tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað
 • Atvinnurekandi skal gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu sem kann að vera bundin við starf þeirra
 • Atvinnurekandi skal þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af
 • Atvinnurekandi skal tryggja samstarf um öryggis- og heilbrigðismál innan fyrirtækisins
 • Atvinnurekandi skal fylgja tilmælum og fullnægja tilkynningaskyldu til Vinnueftirlitsins og láta gera nauðsynlegar rannsóknir og úttektir
 • Atvinnurekandi skal skýra öryggistrúnaðarmönnum frá fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins og skulu öryggistrúnaðarmenn eiga aðgang að eftirlitsbók og öðrum gögnum sem varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Ef ekki er öryggistrúnaðarmaður á vinnustað þá skal félagslegi trúnaðarmaðurinn hafa möguleika á að kynna sér þessi gögn.

Verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og sér um, að allur búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum, sem hann hefur umsjón með.

5.3.2       Fleiri en einn atvinnurekandi

Þar sem fleiri en einn atvinnurekandi eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað skulu þeir sameiginlega vinna að því að tryggja góðan aðbúnað, örugg og heilsusamleg starfsskilyrði á vinnustaðnum í samræmi við lög og reglur.

Atvinnurekandi sem ber ábyrgð á aðalstarfsemi fyrirtækis skal gera ráðstafanir til að forsvarsmenn annarra fyrirtækja sem eru með starfsemi innan fyrirtækisins fái upplýsingar um áhættumat og áætlun um heilsuvernd starfsmanna í fyrirtækinu. Þá skal hann tryggja að starfsmenn annarra fyrirtækja sem starfa á vinnustaðnum fái viðeigandi tilsögn um áhættu sem varðar öryggi og heilsu meðan verk er unnið innan fyrirtækis hans.

5.3.3       Skyldur starfsmanna

Skyldur starfsmanna eru m.a. eftirtaldar:

 • Starfsmenn skulu taka þátt í samstarfi er miðar að auknu öryggi og betri aðbúnaði og hollustuháttum á vinnustað. Starfsmenn skulu gæta eigin öryggis og annarra.
 • Starfsmenn skulu stuðla að því að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi og að framfylgt sé þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti.
 • Starfsmaður skal tilkynna öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda umsvifalaust verði hann var við eitthvað sem er ábótavant eða hættulegt á vinnustað eða við framkvæmd vinnunnar.
 • Ef fjarlægja þarf öryggishlífar eða annað tilsvarandi vegna viðgerðar eða niðursetningar á tæki eða vél, skal sá sem verkið framkvæmir umsvifalaust setja öryggisbúnað á sinn stað aftur eða gera aðrar jafngildar ráðstafanir að verki loknu.
 • Þeir sem starfa á vinnustað, þar sem fleiri en einn atvinnurekendur eiga aðild að starfi manna, skulu starfsmenn fara eftir þeim reglum sem gilda um samstarf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, auk þeirra reglna sem gilda um það starf, sem þeir sjálfir inna af hendi. Þegar starfsmaður er við vinnu utan síns venjulega vinnustaðar, skal hann fara eftir þeim reglum varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi sem gilda fyrir viðkomandi vinnustað, auk þeirra reglna, sem gilda um það verk sem hann á að vinna.

 5.4     Þekking og þjálfun

Virk vinnuvernd krefst þekkingar og þjálfunar bæði atvinnurekenda og starfsmanna. Þess vegna er mikilvægt að þeir afli sér reglulega þekkingar og þjálfunar.

5.4.1       Þekking og þjálfun atvinnurekanda og starfsmanna

Atvinnurekandi skal sjá um að þeir sem kjörnir eru til að fjalla um öryggis- og heilbrigðismál í fyrirtæki hans, öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og fulltrúar í öryggisnefndum, fái tækifæri til þess að afla sér nauðsynlegrar þekkingar og menntunar varðandi öryggi og heilsuvernd á vinnustað, t.d. með því að sækja viðurkennd námskeið um þessi efni. Atvinnurekandi skal veita þeim hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Öryggistrúnaðarmenn skulu fá hæfilegan tíma, miðað við verkefnasvið sitt, til að gegna skyldum sínum við eftirlit með öryggi og heilsuvernd á vinnustað, án tekjutaps.

5.4.2       Þjálfun starfsmanna

Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmaður fái nægilega þekkingu varðandi eigið starf og áhættuþætti í vinnuumhverfinu til að fyrirbyggja heilsutjón og slys í vinnu:

 • Um leið og hann er ráðinn til starfa
 • Þegar hann er fluttur á annan stað eða í annað starf
 • Þegar nýr búnaður er tekinn í notkun eða búnaði er breytt
 • Þegar ný tækni er innleidd.

Sérstaklega skal tryggja að störf sem fela í sér verulega hættu á slysum, eitrunum eða sjúkdómum verði aðeins framkvæmd af einstaklingum sem hafa fengið tiltekna fræðslu og þjálfun, lokið sérstöku prófi og/eða náð ákveðnum aldri. Í fjölmörgum sértækum reglum er fjallað nánar um skyldur atvinnurekenda til að upplýsa starfsmenn og veita þeim nauðsynlega þjálfun. Hér má sem dæmi nefna reglur um skjávinnu, reglur um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar og reglur um notkun persónuhlífa. Kostnaður við þjálfun má ekki leggjast á starfsmenn og skal þjálfunin fara fram í vinnutíma.


 5.5       Vinnan og vinnustaðurinn

Vinnu skal haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Setja skal reglur hvað varðar störf, starfsaðferðir, vinnslu- og framleiðsluaðferðir sem teljast sérlega hættuleg störf. Það verður að setja viðvaranir og merkingar á vinnustað svo þær séu öllum starfsmönnum ljósar. Einnig á að setja reglur um aðgerðir gegn einelti.

5.5.1       Vinnustaðurinn

Vinnustaður merkir umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna vinnu sinnar. Vinnustaðurinn skal þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Settar hafa verið nánari reglur á grundvelli vinnuverndarlaganna um húsnæði vinnustaða, aðbúnað starfsmanna, neyðarútganga o.fl. Um þrif, loftræstingu, upphitun, salerni, matstofur, fatageymslur og annan aðbúnað á vinnustað er fjallað í reglum um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingavinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996. Vélar, áhöld og tæki, húshlutar og annar búnaður skal þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta.

5.5.2       Hættuleg efni og vörur

Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notuð skal atvinnurekandi gæta þess að þeim framleiðslu- og vinnsluaðferðum sé beitt sem tryggja að starfsmenn séu varðir gegn slysum, mengun og sjúkdómum. Þegar áhættumat gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin vegna hættulegra efna skal atvinnurekandi sjá til þess að öryggisblöð og skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum ásamt því að kynna starfsmönnum efni þeirra. Í leiðbeiningunum skal koma fram hvernig bregðast á við þegar slys eða óhapp verður í tengslum við hættuleg efni eða efnavörur. Efni eða efnavara sem stofnar eða getur stofnað heilsu og öryggi starfsmanna í hættu skal vera í öruggum umbúðum á vinnustöðum. Hættulegur efnaúrgangur og spilliefni skulu geymd með öruggum hætti á vinnustað. Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eða efnavörur eru notuð að því marki að skapast geti hætta fyrir fólk og umhverfi skal atvinnurekandi gera öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir slík slys. Enn fremur skal atvinnurekandi gera ráðstafanir til að unnt sé að bregðast við slíkum slysum svo að tafarlaust megi draga úr afleiðingum þeirra.


 5.6     Áhættumat og heilsuvernd

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd. Hafa skal samráð við fulltrúa starfsmanna við undirbúning og framkvæmd áætlunarinnar. Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þegar breytingar á vinnuumhverfi breyta forsendum hennar. Áætlunina skal endurskoða að minnsta kosti á 5 ára fresti hafi ekki skapast sérstakar forsendur til þess fyrir þann tíma.

5.6.1       Áhættumat

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.

Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin, skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt.

5.6.2       Áætlun um heilsuvernd

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.

Markmið heilsuverndar er að:

 • Stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum
 • Stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi
 • Draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað
 • Stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.

Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á því hvernig mæta skuli þeim hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Lögð skal áhersla á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum.

Mikilvægur hluti áætlunar um heilsuvernd á vinnustað er markviss áætlun um framkvæmd úrbóta á vinnustað. Þá er nauðsynlegt að leggja mat á árangurinn af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og hvort nauðsynlegt sé að fylgja þeim frekar eftir.

5.6.3        Heilsufarsskoðanir

Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðun á kostnað atvinnurekanda þegar þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á, eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu starfskilyrði þeirra slík að heilsutjón geti hlotist af og ætla má að með heilsufarsskoðunum megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma eða atvinnutengda sjúkdóma. Mat á þörf fyrir heilsufarsskoðanir starfsmanna er hluti af áhættumati og heilsufarsskoðanir geta verið mikilvægur þáttur áætlunar um forvarnir.

5.6.4       Ábyrgð atvinnurekenda og þjónustuaðilar

Það er ábyrgð atvinnurekanda að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Búi atvinnurekandi eða starfsmenn hans ekki yfir þeirri færni sem krafist er skal hann leita aðstoðar til þess hæfra þjónustuaðila.

Þjónustuaðili skal hafa hlotið viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins. Hann skal vera fær um að veita heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum. Þá skal hann gæta trúnaðar í starfi sínu og fara með allar upplýsingar sem varða persónuleg málefni starfsmanna og einkahagi þeirra sem trúnaðarmál. Atvinnurekandi skal tryggja að heilsuverndareftirlit, læknisskoðanir, mælingar og rannsóknir valdi ekki tekjutapi starfsmanna.

5.6.5       Sálfélagslegir þættir – Félagslegur og andlegur aðbúnaður á vinnustað. 

Í vinnuverndarlögunum er kveðið á um að gæta skuli að félagslegum þáttum varðandi vinnuvernd og líðan starfsmanna á vinnustað og er þá átt við atriði eins og streitu, þunglyndi, einelti, áreiti og verkkvíða.

Mælt er fyrir: „um ráðstafanir til að koma í veg fyrir og uppræta einelti á vinnustöðum en starfsmenn eiga ekki að þurfa að þola áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað, þar með talda kynferðislega áreitni eða annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi.˝ Þá er ljóst að varnir gegn vinnustreitu geta á mörgum vinnustöðum verið mikilvægur þáttur í áhættumati og heilsuvernd. Margt getur haft áhrif á félagslega hlið vinnuverndar t.d. vinnuskiplag, tengsl starfsmanna, verkstjórn, kröfur viðskiptavina og skjólstæðinga. Vinnustreita er eitt algengasta heilsufarsvandamál á vinnustöðum í dag.

 


 5.7     Skráning og tilkynningar

Atvinnurekandi skal skrá öll slys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til andláts eða óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Hið sama gildir um þá sjúkdóma sem atvinnurekandi hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Einnig skal atvinnurekandi skrá óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum og eru til þess fallin að valda slysum.

Atvinnurekandi og þeir aðilar sem starfa að vinnuvernd innan fyrirtækja, skulu fara með allar persónuupplýsingar sem trúnaðarmál. Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en innan sólarhrings um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hvers konar hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun. Atvinnurekandi skal veita upplýsingar um aðstæður á slysstað, um hvers konar efni er að ræða og hvaða ráðstafana gripið hefur verið til eftir því sem frekast er unnt.

Atvinnurekandi skal innan viku tilkynna skriflega um slysið eða óhappið til Vinnueftirlits ríkisins. Hér má sjá leiðbeiningar varðandi tilkynningu vinnuslysa.

Atvinnurekandi skal upplýsa þá starfsmenn sem er hætta búin eða fulltrúa þeirra, án tafar um öll slys eða óhöpp þar sem vera kann að hættuleg efni og efnavörur geti valdið mengun.

Læknir sem kemst að eða fær grun um að starfsmaður eða starfsmenn séu með atvinnusjúkdóm eða hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna skal án ástæðulausrar tafar tilkynna það til Vinnueftirlitsins.

5.7.2       Bráð hætta

Telji Vinnueftirlitið að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf og heilbrigði starfsmanna eða annarra, getur það krafist þess að strax séu gerðar nauðsynlegar umbætur eða vinna í þeim hluta starfseminnar sem um er að ræða, sé stöðvuð. Ef atvinnurekanda eða starfsmönnum, sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf, verður ljóst að skyndilega hafi upp komið bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, er þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð strax og/eða að starfsfólk hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir.

Atvinnurekanda ber jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf. Þær aðgerðir sem getið er hér að framan gera þá sem þar greinir ekki ábyrga fyrir því tjóni sem fyrirtæki kann að verða fyrir vegna stöðvunar eða fráhvarfa starfsmanna af vinnustað þar sem hið bráða hættuástand var talið ríkja og er óheimilt að láta þá gjalda fyrir ákvörðun sína á nokkurn hátt.


 5.8     Sérreglur

Mikilvægt er að hafa í huga að í gildi eru fjölmargar sérreglur um tiltekna þætti vinnuverndar er varða vinnustaðinn, skipulagningu vinnunnar og tæki og búnað sem notaður er við framkvæmd hennar. Það gildir m.a. um húsnæði vinnustaða, öryggis- og heilbrigðismerkingar á vinnustöðum, gerð og notkun persónuhlífa, skjávinnu og um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, svo fáein dæmi séu tekin.


 5.9     Hvíldartími, frídagar og hámarksvinnutími

Lögin kveða m.a. á um:

 • Rétt starfsmanna til 11 klst. samfelldrar hvíldar á sólarhring.
 • Rétt starfsmanna til hlés frá störfum ef unnið lengur en sex klst.
 • Rétt starfsmanna til vikulegs frídags.
 • Að hámarksvinnutími sé 48 klst. að meðaltali á 4 mánaða tímabili.
 • Takmörkun á vinnutíma næturvinnustarfsmanna.

Um nánari útfærslu og frávik frá meginreglum er vísað í samninga aðila vinnumarkaðarins um skipulag vinnutíma.


 5.10 Vinna barna og unglinga

Meginreglan er að börn á grunnskólaaldri má ekki ráða til vinnu.

Frávik frá því eru:

 • Vinna við menningar- og listviðburði og íþrótta og auglýsingastarfsemi
 • Heimilt er að ráða 14 ára unglinga til vinnu sem hluta af fræðilegu eða verklegu námi
 • Heimilt að ráða 13 ára unglinga og eldri til léttra starfa í takmarkaðan tíma á viku.
 • Með reglugerð hefur verið skilgreint hvað teljast létt störf.
 • Heimildir til að ráða unglinga að 18 ára aldri til starfa eru takmarkaðar.
 • Óheimilt að ráða þá ef ætla má að:
 • Vinna sé ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra
 • Vinna getur valdið varanlegu heilsutjóni
 • Fyrir hendi er slysahætta
 • Þeim sé hætta búin vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings
 • Hætta sé á ofbeldi.

Ákveðnar reglur gilda síðan um vinnutíma og hvíldartíma ungmenna.