HANDBÓK TRÚNAÐARMANNSINS

KAFLI 8

Lífeyrisréttindi

8.1 Almannatryggingar – Grunnstoðin
8.2 Lífeyrissjóðirnir – Önnur stoðin
8.3 Séreign – Þriðja stoðin
8.4 Nánar um réttindi í lífeyrissjóðum


 

Lífeyriskerfið hér á landi byggir á þrem megin stoðum; Almannatryggingum, samtryggingarlífeyrissjóðum og frjálsum séreignasparnaði.


 8.1     Almannatryggingar – Grunnstoðin

Almannatryggingar tryggja öllum lífeyrisþegum ákveðna lágmarks framfærslu. Almannatryggingarkerfið er s.k. gegnumstreymiskerfi sem þýðir að það er fjármagnað með skatttekjum á hverjum tíma. Allir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa búið hér á landi í þrjú ár fyrir þann aldur eiga rétt á ellilífeyri almannatrygginga.

Ellilífeyrir almannatrygginga er tekjutengdur og tekur skerðingum ef aðrar tekjur lífeyrisþega ss. úr lífeyrissjóðum eða vegna atvinnu, eru umfram ákveðið frítekjumark. Þeir lífeyrisþegar sem búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót auk þess sem ellilífeyrisþegar geta átt rétt á sérstökum uppbótum vegna lyfjakaupa, umönnunar eða vegna reksturs bifreiðar ef um líkamlega hreyfihömlun er að ræða. Sjá frekari upplýsingar á vef Tryggingastofnunar (www.tr.is).


 8.2     Lífeyrissjóðirnir – Önnur stoðin

Samtryggingarlífeyrissjóðir eru önnur stoð lífeyriskerfisins og sú sem stendur undir stærstum hluta ellilífeyris í dag. Réttindi í lífeyrissjóðum byggja á því iðgjaldi sem öllu launafólki hér á landi er skylt að greiða í sjóðina og því mótframlagi sem atvinnurekendum ber að greiða á móti. Þetta iðgjald tryggir sjóðfélögum eftirlaun í ellinni en einnig greiðslu örorkubóta og barnabóta ef þeir missa starfsgetuna á starfsævinni. Ef sjóðfélagi fellur frá vegna veikinda eða slyss tryggir sjóðurinn eftirlifandi maka makabætur og barnabætur. Lífeyrissjóðirnir gegna því ekki síður mikilvægu hlutverki sem fjölskyldutrygging fyrir afkomu ungs fólks sem lendir í alvarlegum áföllum. Samtryggingarsjóðir byggja á þremur megin stoðum; sjóðssöfnun, samtryggingu og skylduaðild.

8.2.1       Sjóðssöfnun

Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri til æviloka. Vaxtatekjur mynda þannig yfir helminginn af útborguðum lífeyri. Þannig er lífeyrir framtíðarinnar tryggður með traustum sjóði fremur en vaxandi skattbyrði á afkomendur okkar.

Þetta er einn mesti styrkur íslenska lífeyrissjóðakerfisins, en mörg ríki glíma nú við mikinn vanda vegna þess að lífeyriskerfi þeirra byggja á gegnumstreymiskerfi. Það þýðir að lífeyrisgreiðslur á hverjum tíma eru fjármagnaðar af þeirri kynslóð sem er á vinnumarkaði með sköttum. Þetta skapar mikinn vanda þegar aldurssamsetning þjóða breytist og fámennari kynslóðir yngra fólks þurfa að standa undir lífeyrisgreiðslum til fjölmennari kynslóða eldra fólks. Hér á landi eru í dag um sex manns á vinnumarkaði fyrir hvern og einn sem er á eftirlaunum. Árið 2030 munu ekki vera nema þrír á vinnumarkaði fyrir hvern eftirlaunaþega og mun það hlutfall halda áfram að lækka fram til 2050.

8.2.2       Samtrygging

Aðild að lífeyrissjóði tryggir verðtryggðan lífeyri til æviloka. Með samábyrgð og þátttöku allra tryggjum við einnig afkomu þeirra sem verða fyrir áfalli vegna sjúkdóms eða slyss og afkomu fjölskyldunnar við fráfall. Samtryggingin byggir á að lífeyrissjóðurinn tryggir alla sjóðfélaga gegn sama hlutfallslega iðgjaldi óháð kyni, aldri, áhættu í starfi eða öðrum þáttum sem hafa áhrif á örorkulíkur eða dánarlíkur viðkomandi.

8.2.3       Skylduaðild

Aðild að lífeyrissjóði er hluti af umsömdum kjörum hverrar starfsstéttar eða starfshóps. Skylduaðildin er forsenda þess að við getum dreift áhættunni jafnt, að allir séu með og hægt sé að forðast mismunun og tryggja öllum lífeyri, óháð efnahag og aðstæðum. Öryggið sem almennu lífeyrissjóðirnir veita kostar lítið í samanburði við ýmsar tryggingar sem bjóðast til kaups.


 8.3     Séreign – Þriðja stoðin

Þriðja stoð lífeyriskerfins byggir á frjálsum viðbótarlífeyrissparnaði, s.k. séreignarsparnaði sem er valfrjáls. Ákveði launamaður að spara 2-4 % af launum sínum í viðbótarlífeyrissparnað er atvinnurekanda skylt að greiða 2% mótframlag til séreignarsjóðs. Iðgjöld í viðbótarlífeyrissparnað eru, líkt og önnur lífeyrisiðgjöld, ekki skattlögð við innborgun heldur þegar kemur að útborgun lífeyris. Launamaður þarf sjálfur að gera sérstakan samning við sinn lífeyrissjóð eða annan vörsluaðila séreignarsparnaðar um móttöku séreignarsparnaðar. Heimilt er að hefja úrgreiðslur úr séreignarsjóði við 60 ára aldur. Eign í séreignarsjóði er séreign sjóðfélaga og erfist skv. erfðarlögum.

8.3.1       Eitt lífeyriskerfi fyrir allan vinnumarkaðinn

Fram til 1. júní 2017 má segja að tvö mismunandi lífeyriskerfi hafi verið á vinnumarkaði. Annars vegar réttindakerfi launafólks á almennum vinnumarkaði sem greiðir í s.k. almenna lífeyrissjóði og hins vegar réttindakerfi opinberra starfsmanna sem greiða til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Brúar – lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Með breytingum á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem samþykkt var í desember 2016 voru gerðar breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sem miða að því að samræma til framtíðar lífeyrisréttindi á almenna- og opinbera vinnumarkaðnum með því að aldurstengja réttindi, samræma lífeyrisaldur og stuðla að sjálfbærni sjóða opinberra starfsmanna. Breytingarnar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna ná þó einungis til þeirra starfsmanna sem hófu störf eftir 1. júní 2017 en þeim sjóðfélögum sem áttu aðild að LSR og Brú fyrir þann tíma eru tryggð sömu réttindi og fyrir breytinguna.

8.3.2       Kjarasamningar og lög um lífeyrisréttindi

Á almennum vinnumarkaði byggja lífeyrisréttindi á ákvæðum í kjarasamningi milli ASÍ og SA um lífeyrismál sem er upprunalega frá árinu 1969 en hefur verið endurskoðaður nokkrum sinnum síðan. Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 er að finna almenna umgjörð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Lögin skilgreina inntak skyldutryggingarinnar og samninga um frjálsan viðbótarlífeyrissparnað, setja almenn skilyrði fyrir starfsemi lífeyrissjóða og heimildum þeirra til fjárfestingar og kveða á um eftirlit með lífeyrissjóðum. Um starfsemi LSR gilda auk þess lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997 en í þeim er að finna ákvæði er varða sérstaklega starfsemi og réttindi í þeim sjóði.

8.3.3       Tryggingafræðilegt mat lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðir þurfa árlega að fá tryggingarfræðilegt mat á stöðu sjóðsins sem segir til um gjaldhæfi þeirra þ.e. getu sjóðsins til þess að standa undir þeim réttindum sem sjóðfélögum hefur verið lofað. Í tryggingarfræðilegu mati liggja m.a. til grundvallar eignir og skuldbindingar sjóðanna auk lýðfræðilegara þátta á borð við fæðingartíðni, væntar ævilíkur og örorkutíðni sjóðfélaga.

8.3.4       Ávinnsla lífeyrisréttinda

Ávinnsla réttinda til lífeyris er aldurstengd í öllum lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði og í A-deildum LSR og Brúar frá 1. júní 2017. Aldurstengd ávinnsla merkir að sá sem er yngri ávinnur sér meiri réttindi en sá sem er eldri fyrir sama iðgjald, þar sem iðgjald yngri sjóðfélaga ávaxtast lengur í sjóðnum. Reglur um ávinnslu réttinda eru útfærðar nánar í réttindatöflu hvers lífeyrissjóðs sem er hluti af samþykktum sjóðsins. Réttindataflan sýnir framtíðarréttindi sjóðsfélaga fyrir hvert tíuþúsund krónu iðgjald.

Dæmi:

Aldur við innborgun Árleg lífeyrisréttindi frá 67 ára aldri fyrir hvert 10.000 kr. iðgjald sem greitt er til sjóðsins á hverju aldursári
25 ára 2.041,-
35 ára 1.375,-
45 ára 1.072,-
55 ára 925,-
65 ára 795,-

 

8.3.5       Réttindaávinnsla opinberra starfsmanna fyrir 1. júní 2017

Fyrir 1. júní 2017 var réttindaávinnsla í A-deildum LSR og Brúar jöfn sem þýðir að ávinnsla réttinda var hin sama alla starfsævina óháð aldri við innborgun og ávöxtunartíma iðgjalda. Sjóðfélögum þessara deilda sem voru í starfi fyrir 1. júní 2017 verða hins vegar áfram tryggð réttindi sem jafngilda jafnri ávinnslu út starfsævina.

Sjóðfélagar í LSR sem voru í starfi í árslok 1996 eiga rétt til aðildar að B-deild LSR.

B- deild LSR er fastréttindasjóður. Það merkir að fyrir 100% starf ávinnast föst réttindi á ári sem nemur 2% af þeim launum sem greitt er af. Tvær reglur gilda um réttindaávinnslu og lífeyristökualdur í B-deild LSR:

32 ára regla: Þegar sjóðfélagi hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í 32 ár falla iðgjaldagreiðslur hans niður, frá þeim tíma greiðir launagreiðandinn allt iðgjaldið 12% af þeim launum sem iðgjöld reiknast af. Þeir sjóðfélagar, sem velja þessa leið, verða því iðgjaldafríir upp frá því en ávinna sér þá 1% réttindi á ári, miðað við fullt starf, í stað 2% áður.

Dæmi: Sjóðfélagi, sem byrjar að greiða í sjóðinn 25 ára og greiðir iðgjöld af fullu starfi í 32 ár eða til 57 ára aldurs, ávinnur sér 64% lífeyrisrétt. Frá 57 ára aldri til 65 ára aldurs bætir hann við sig 1% á ári eða alls 8%. Láti sjóðfélaginn af störfum 65 ára hefur hann áunnið sér 72% lífeyrisrétt. Starfi hann áfram til 70 ára aldurs bætir hann 2% við rétt sinn fyrir hvert ár frá 65 ára aldri til 70 ára aldurs eða samtals 10% fyrir þessi ár. Lífeyrisréttur við 70 ára aldur verður þá alls 82%.

95 ára regla: Gildir þegar samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími nær 95 árum. Þá getur sjóðfélagi hafið töku lífeyris fyrir 65 ára aldur, en þó ekki fyrr en 60 ára lífaldri er náð. Hámarksréttindi þegar 95 ára reglu er náð eru 64% og þá falla iðgjaldagreiðslur sjóðfélagans niður. Haldi sjóðfélagi áfram starfi bætir hann við sig 2% fyrir hvert ár í fullu starfi. Starfi hann til 65 ára aldurs verður rétturinn 74%. Starfi hann til 70 ára aldurs verður rétturinn 84%.


 8.4     Nánar um réttindi í lífeyrissjóðum

8.4.1       Ellilífeyrir

Almennur ellilífeyrisaldur er 67 ár og frá þeim tíma er greiddur fullur ellilífeyrir. Lífeyrisaldur opinberrra starfsmenn sem voru í starfi fyrir 1. júní 2017 er þó 65 ár og geta þeir fengið fullan ellilífeyri frá þeim aldri. Sjá þó sérreglur um sjóðfélaga í B-deild LSR hér að ofan. Almennt má flýta eða seinka töku ellilífeyris. Ef lífeyristöku er flýtt er í flestum tilfellum miðað við 60 – 65 ára aldur. Þá skerist lífeyrisréttur sem nemur 0,6 – 0,7% fyrir hvern mánuð fram að almennum lífeyrisaldri. Ef lífeyristöku er seinkað hækkar lífeyrisréttur sem nemur 0,6 – 0,7% fyrir hvern mánuð þar til 70 ára aldri er náð. Frekari upplýsingar má fá hjá hverjum sjóði fyrir sig.

8.4.2       Örorkulífeyrir

Er greiddur ef starfsgeta sjóðsfélaga til að gegna sínu starfi, skerðist um 50% eða meira vegna sjúkdóms eða slyss. Skerðing starfsgetu er metin út frá læknisfræðilegum forsendum af trúnaðarlækni sjóðsins. Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum örorkutaps. Örorkulífeyrir miðast við áunnin réttindi í sjóðnum þ.e. greidd iðgjöld en til viðbótar getur komið s.k. framreikniréttur sem tryggir viðbótarrétt þannig að við útreikning á örorkulífeyrinum er miðað við að viðkomandi hefði greitt til sjóðsins af meðaltekjum síðustu 3ja ára þar til hann er 65 ára. Framreiknirétturinn er þannig sérstaklega hannaður til þess að treysta og bæta réttindi ungs fólks á vinnumarkaði en miðað er við að greitt hafi verið samfellt í lífeyrissjóð í 3 ár eða lengur

8.4.3       Makalífeyrir

Er greiddur við fráfall sjóðsfélaga til eftirlifandi maka. Skilgreining á maka eru viðurkennd sambúðarform. Makalífeyrir er hlutfall af áunnum ellilífeyrisrétti. Að lágmarki er sá réttur 50%. Margir lífeyrissjóðir hafa fært þennan rétt í 60%. Makalífeyrir er greiddur í 2 – 3 ár og í mörgum tilfellum síðan að hálfu í allt að 2 ár til viðbótar. Eftirlifandi maki fær greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélaga nær 18 ára aldri að lágmarki, enda sé það á framfæri makans. Ef eftirlifandi maki er yngri en 67 ára og er að a.m.k 50% öryrki er makalífeyrir oft greiddur meðan sú örorka varir. Ef eftirlifandi maki gengur í hjónaband eða stofnar til sambúðar fellur makalífeyrir niður.

8.4.4       Barnalífeyrir

Er greiddur við andlát eða örorku vegna barna sjóðsfélaga sem eru á hans framfæri, til að lágmarki 18 ára aldurs barnsins. Barnalífeyrir greiðist til framfæranda barns en getur verið greiddur beint til barnsins ef um fráfall framfæranda er að ræða.