SAGA

Rekja má fræðslustarfsemi ASÍ allt til ársins 1937 þegar ákveðið var á aukaþingi ASÍ að stofna Menningar og fræðslusamband alþýðu (MFA), sem hóf störf árið eftir. Sambandinu var fyrst og fremst ætlað að standa fyrir fyrirlestrum, námskeiðum, námsfélögum, útgáfu bóka og ritlinga, útvarpserindum og annarri fræðslu og menningarstarfsemi. Standa átti undir rekstrinum með því að hvert verkalýðsfélag legði fram tiltekið gjald fyrir hvern félaga. Mjög blómleg bókaútgáfa var misserin á eftir.  MFA stóð einnig fyrir námskeiðum fyrir ungt fólk í verkalýðshreyfingunni og var fyrsta námskeiðið haldið 1939 í tengslum við Alþýðuskólann sem hafði verið starfræktur þá um nokkurra ára skeið sem kvöldskóli fyrir ungt fólk úr alþýðustétt.

Samstarf MFA og ASÍ stóð stutt stutt en þegar skilið var á milli Alþýðuflokks og Alþýðusambands, í kringum 1940, fylgdi MFA Alþýðuflokknum og rofnuðu þar með tengslin við ASÍ. Alþýðusambandið hélt þó uppi öflugri fræðslustarfsemi fram á sjötta áratuginn. Draumurinn var þá að stofna verkalýðsskóla, en það varð ekki að veruleika á þessum tíma. 

Eftir umræðu á vettvangi Alþýðusambandsins, var árið 1969 samþykkt reglu­gerð fyrir fræðslustofnun á vettvangi heildarsamtakanna, Menningar og fræðslusambands alþýðu. Í reglugerðinni kom fram að því væri ætlað að sinna almennri fullorðinsfræðslu, félagsmálafræðslu og starfsmenntun. Starfsemin fór hægt af stað en efldist með árunum. Í upphafi var áherslan einkum lögð á félagsmálafræðslu fyrir trúnaðarmenn og aðra talsmenn verkalýðshreyfingarinnar. Sú starfsemi fékk síðar mun traustari grunn, þegar ákvæði um rétt trúnaðarmanna til að sækja námskeið á launum kom inn í kjarasamninga 1977.

Félagsmálaskóli alþýðu var síðan stofnaður með þátt­töku verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda og fjármögnun á fjárlögum með sérstökum lögum 1989. Þá um leið var skólinn einnig opnaður félagsmönnum BSRB. Þar með var skotið sterkum fjárhagslegum stoðum undir félagsmálafræðslu á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar.

Betur má lesa um sögu skólans í Sögu Alþýðusambands Íslands sem kom út 2013.