HANDBÓK TRÚNAÐARMANNSINS

KAFLI 7

Hagfræði og launafólk

7.1 Hvað er hagfræði?
7.2 Vinnumarkaður
7.3 Verðlag
7.4 Verðmætasköpun
7.5 Peningamarkaður


 

Þessi samantekt er ætluð til þess að dýpka skilning trúnaðarmanna og þeirra sem starfa við hagsmunabaráttu launafólks á hugtökum tengdum atvinnulífinu og kjarabaráttu og gera þá hæfari til þess að taka þátt í umræðu fyrir hönd umbjóðenda sinna.


 7.1     Hvað er hagfræði?

Hvernig ráðstöfum við tíma okkar í vinnu eða frístundir? Er það þess virði fórna helgarfríi fyrir aukavinnu? Er betra að safna fyrir hlutum eða taka lán? Hvernig lán er hagkvæmast að taka við húsnæðiskaup? Það er skortur á flestum lífsins gæðum og nauðsynjum. Við alla ákvörðunartöku þarf að leggja mat á ólíka valkosti og velja og hafna.

Enska orðið yfir hagfræði er economics sem kemur úr grísku og þýðir ”sá sem stjórnar heimilishaldinu”. Hagfræðin á margt skylt með heimilishaldinu. Líkt og á heimilinu þarf í hagkerfinu að hafa ákveðna verkaskiptingu, ákvarða hvernig fjármunum og eignum er ráðstafað og hvernig skipta eigi takmörkuðum gæðum og auðlindum á milli þegnanna. Hagfræði fjallar um fjárhag einstaklinga, fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga og þjóðarinnar í heild. Hún lýsir hegðun þessara aðila, samspili þeirra í hagkefinu og leiðir þeirra til að bæta hag sinn.

Hegðun allra hefur áhrif á hagkerfið og hagfræðingar reyna að lýsa því hvernig ástandið er og hvernig það muni verða. Hagfræði eru ekki nákvæm vísindi því hagkerfið tekur stöðugum breytingum eftir því hvernig við bregðumst við breyttum aðstæðum hverju sinni. Þetta sama á við um fyrirtæki og opinbera aðila, ákvarðanir sem teknar eru í dag ráðast af miklum hluta af væntinum um framtíðarhorfur.


 7.2     Vinnumarkaður

7.2.1       Laun

Laun eru greidd fyrir vinnu, en einnig má hafa tekjur af fjármagni. Að jafnaði hefur hlutfall launa af vergum þáttatekjum 60% en það er Hagstofa Íslands sem tekur saman tölur um laun á vinnumarkaði hér á landi. Undanfarin ár hafa regluleg laun þ.e. laun fyrir reglulegan vinnutíma (dagvinnulaun, vaktalaun og bónusar) verið um 80% af heildarlaunum og yfirvinna og eingreiðslur s.s. orlofs- og desemberuppbót o.fl. verið um 20%. Ofan á laun reiknast svo orlof og framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Stéttarfélög og samtök atvinnurekenda semja um lágmarkslaun á vinnumarkaði, en til viðbótar koma yfirborganir, sem ráðast á markaði.

Kaupmáttur launa

Þegar samið er um laun er meginmarkmið í sjálfu sér ekki krónutöluhækkun launa heldur mun frekar aukinn kaupmáttur launa, það er að segja hvað við fáum fyrir launin okkar. Kaupmáttur launa lýsir því hversu mikið af vörum og þjónustu fæst fyrir launin. Venjulega mælum við kaupmátt með breytingu á reglulegum launum. Ef launin haldast óbreytt í krónum talið og verð á vörum og þjónustu hækkar þýðir það að hægt er að kaupa minna magn af vörum og þjónustu en áður. Með öðrum orðum kaupmáttur launanna hefur rýrnað.

Dæmi: Ef regluleg laun hækka um 8% á einu ári og verðbólgan á sama tíma er 7,5% þá jókst kaupmáttur launa að meðaltali um 0,5%. Þetta þýðir að meðallaunamaður getur keypt ríflega 0,5% meira af vörum og þjónustu fyrir það sem hann hefur upp úr dagvinnu eða vaktavinnu nú, en hann gat keypt fyrir það sem hann hafði upp úr krafsinu fyrir ári síðan. Kaupmáttur sveiflast talsvert með efnahagsástandinu, en þegar litið er á langan tíma, til dæmis nokkra áratugi hefur kaupmáttur verkamanna að jafnaði hækkað um 1½-2% á ári hér á landi.

Launahlutfall

Einn mælikvarði á verðmætasköpun fyrirtækjanna eru svokallaðar þáttatekjur. Þær eru mældar sem framleiðsluverðmæti, að frádregnum aðföngum (s.s. hráefniskostnaði), óbeinum sköttum og að viðbættum styrkjum. Launahlutfall er sá hluti þáttateknanna sem fer í launagreiðslur. Launahlutfallið hefur undanfarin ár verið tæp 70% en vergur rekstarafgangur verið um 30%. Hlutur launa í þáttatekjum sveiflast þó með efnahagsástandinu. Á þenslutímum keppast fyrirtæki um starfsfólk og laun hækka en þegar verr árar snýst dæmið við og launahlutfallið lækkar.

7.2.2       Atvinnustig og atvinnuleysi

Með atvinnustigi er oftast átt við andhverfu atvinnuleysis. Ef atvinnuleysi er 3% er atvinnustig 97%. Atvinnulausir eru í alþjóðlegum samanburði taldir þeir sem leita sér að vinnu en fá ekki. Á Íslandi áætlar Hagstofan fjölda atvinnulausra. Auk þess er hér á landi oft horft á skráningu atvinnuleysis vegna bótagreiðslna sem Vinnumálastofnun heldur utan um. Atvinnuleysi á þann mælikvarða er yfirleitt heldur lægra en atvinnuleysi mælt í könnun Hagstofunnar.

Á 2. ársfjórðungi 2017 voru rúmlega 202.500 á vinnumarkaði að mati Hagstofunnar. Þar af voru 195.600 starfandi og 7.000 atvinnulausir. Starfandi teljast þeir sem unnu eina klukkustund eða lengur í vikunni sem spurt var, voru veikir eða í orlofi. Atvinnuleysi var því 3,4% vinnuaflsins. Atvinnuleysi sveiflast með efnahagsástandinu. Þegar samdráttur var sem mestur í efnahagslífinu á fyrri hluta tíunda áratugarins fór atvinnuleysið í um 5% af vinnuafli.

En atvinnuleysið segir ekki alla söguna um atvinnuástandið, því að utan vinnuaflsins er fólk sem er heimavinnandi, í skóla eða óvinnufært. Á samdráttartímum fækkar yfirleitt þeim sem eru á vinnumarkaði. Á 2. ársfjórðungi 2017 voru um 84,4% fólks á aldrinum 16 til 74 ára hér á landi á vinnumarkaði. Auk þess sveiflast vinnutími eftir því hvort þensla eða samdráttur er á vinnumarkaði.


 7.3     Verðlag

7.3.1       Verð og verðmyndun

Verð er það sem greitt er fyrir vörur og þjónustu. Verð sveiflast frá einum tíma til annars og það er líka mishátt eftir því hvar keypt er inn. Eðlilegt er að verð á einstökum vörum breytist. Breytingarnar geta til dæmis stafað af aðstæðum á markaði. Stundum er eftirspurn mikil eftir einstökum vörum. Þá hækka þær í verði. Verðhækkunin verður þá nýjum framleiðendum hvatning til þess að fara inn á markaðinn og í framhaldinu ætti verðið að lækka aftur. Stundum er líka mikið framboð af einstökum vörum. Segjum til dæmis að meira sé framleitt af lambakjöti en markaðurinn tekur við á því verði sem sett er upp. Þá mun þurfa að lækka verðið til að magn eftirspurnar aukist. Fólk er tilbúið að kaupa meira af lambakjöti en áður, en á móti er líklegt að framleiðsla dragist saman. Verðbreytingar stafa líka oft af breytingum á framleiðslukostnaði. Vasareiknar hafa t.d. lækkað í verði vegna nýrrar tækni við framleiðslu þeirra. Verð á einstökum vörum og þjónustu getur breyst þótt að almennt verðlag breytist ekki.

7.3.2       Verðbólga

Verðbólga er hækkun á almennu verðlagi í hagkerfinu. Þegar talað er um verðbólgu er því ekki átt við hækkanir á einstaka vörum eða þjónustu. Algengasti mælikvarðinn á verðbólgu er árshækkun á vísitölu neysluverðs sem Hagstofan mælir í hverjum mánuði. Vísitalan mælir verð á vörukörfu með fjölmörgum vöru- og þjónustuliðum sem eiga að endurspegla dæmigerða neyslu meðalheimilis. Með því að skoða hvernig verð þessarar vörukörfu breytist má meta breytingar á almennu verðlagi. Ef almenn verðlag lækkar, kallast það hinsvegar verðhjöðnun. Það er Hagstofan safnar upplýsingum um verð neysluvara og birtir einu sinni í mánuði. ASÍ hefur reglulegt eftirlit með verði á vörum og þjónustu og gerir reglulega verðkannanir til þess að veita fyrirtækjum aðhald og upplýsa almenning. Með þessu er reynt að sporna gegn verðhækkunum og tryggja kaupmátt launanna.


 7.4     Verðmætasköpun

7.4.1       Landsframleiðsla

Landsframleiðsla er summa þess sem búið er til hér á landi, bæði af vörum og þjónustu. Verðmætasköpun í þjóðarbúinu er ráðstafað til neyslu einstaklinga, neyslu hins opinbera og til fjárfestinga. Landsframleiðsla mælir fyrst og fremst viðskipti. Ef okkur er boðið í mat hjá vinum telst maturinn ekki með í landsframleiðslunni. Ef við hinsvegar kaupum mat á veitingahúsi er það til einkaneyslu og þannig talið til verðmætasköpunar í hagkerfinu. Landsframleiðsla gefur hugmynd um velferð eða lífsgæði, en hún er ekki einhlítur mælikvarði. Undanfarin ár hefur Ísland verið meðal efstu landa heims í landsframleiðslu á mann. En Íslendingar hafa mikið fyrir framleiðslunni. Fáir, ef nokkrir vinna meira. Þegar landsframleiðsla á vinnutíma er skoðuð færist Ísland því nokkru neðar á listanum. Annað tekjuhugtak er þjóðartekjur. Munurinn á þjóðartekjum og landsframleiðslu liggur í orðunum. Arður og vextir af erlendu fjármagni hér á landi teljast með í landsframleiðslunni, en ekki þjóðartekjum og hið sama má segja um launagreiðslur til útlendinga sem eru hér í skamman tíma. Á sama hátt eru vextir af eignum Íslendinga í útlöndum og laun Íslendinga sem starfa um hríð erlendis talin með í þjóðartekjum, en ekki landsframleiðslu. Mest munar um vaxtagreiðslur af lánum Íslendinga til útlanda og þjóðartekjur eru því yfirleitt lægri en landsframleiðsla.

7.4.2       Hagvöxtur

Til þess að nýir íbúar hafi það jafn gott og eldri verður framleiðslan í landinu að aukast sem nemur fólksfjölguninni. Fjölgi íbúum um 1% verður landsframleiðsla að aukast um 1% til að allir verði jafnvel settir eftir á. Hagvöxtur þýðir að verðmæti alls þess sem búið er til í landinu hefur aukist. Hagvöxtur er ein forsenda þess að fyrirtækin geti greitt hærri laun. Hagtölur frá Íslandi og öðrum löndum sýna náið samhengi með landsframleiðslu á vinnutíma og kaupmætti tímakaups.

7.4.3       Fjárfestingar

Fjárfestingar eru mikilvægur undirbúningur fyrir framtíðina. Ríkið fjárfestir mikið, sem dæmi eru virkjanir, vegir, göng, brýr og byggingar. Fólk fjárfestir í íbúð og menntun fyrir sig og börnin. Fyrirtæki fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum, s.s. útgerðarfélag kaupir nýtt frystiskip eða setur upp nýja framleiðslulínu í frystihúsin. Fjárfestingar geta leitt til fækkunar starfsfólks á einstökum vinnustöðum, en jafnan myndast ný störf á móti annars staðar í hagkerfinu. Arðsamar fjárfestingar stuðla að auknum hagvexti og þar með bættum lífskjörum þegar horft er til langs tíma.


 7.5     Peningamarkaður

7.5.1       Vextir

Flest tökum við lán einhvern tímann á ævinni og við lánum líka öðrum fé (sparnaður). Við viljum ekki að neysla okkar sveiflist of mikið. Þess vegna tekur námsfólk lán, en vinnandi fólk safnar í lífeyrissjóð til ellinnar. Þeir sem leggja í fjárfestingar, í húsnæði eða atvinnurekstur, taka líka fé að láni. Á heildina litið þá lánar launafólk meira fé en þeir taka að láni, en fyrirtæki taka meiri lán en þau lána öðrum. Vextir eru lagðir á fé sem tekið er að láni. Flestir eru óþolinmóðir og kjósa heldur peninga fyrr en síðar. Stundum tekur lánveitandinn líka nokkra áhættu, því að ekki er alltaf tryggt að hann fái peningana aftur. Vextirnir eru greiðsla fyrir þetta tvennt, áhættu lánveitandans og það að fá að ráðstafa fé fyrr en ella. Auk þess er hluti af vöxtunum uppbót fyrir verðbólgu (á verðtryggðum lánum er þessi hluti vaxtanna talinn með höfuðstól lánsins).

7.5.2       Nafnvextir og raunvextir

Vextir eru oft greindir í nafnvexti, sem er vaxtaprósentan sem greidd er og raunvexti sem eru vextir umfram verðbólgu. Ef nafnvextir eru t.d. 7% og verðbólgan 3% þá eru raunvextir 4%.

7.5.3       Stýrivextir Seðlabankans

Seðlabanki Íslands hefur að markmiði að halda verðbólgu niðri og helst undir 2,5% á ári. Fari verðbólga yfir þessi mörk þarf Seðlabankinn að bregðast við til að ná verðbólgunni niður. Aðaltæki hans er að hækka vexti af lánum til viðskiptabankanna. Þegar þeir hækka, hækka bankarnir yfirleitt skammtímavexti sína. Þegar bankavextir hækka dregur úr sókn í lánsfé og sparnaður vex. Þá dregur úr kaupum á vörum og þjónustu. Við það dregur úr þrýstingi á verðlag. Að jafnaði líður um það bil ár þar til vaxtahækkanir Seðlabankans fara að hafa áhrif á verðlag. Vaxtaákvarðanir hans eru ekki fyrst og fremst miðaðar við efnahagsástandið á líðandi stund, heldur er reynt að skyggnast fram á við. Hækkandi vextir leiða til þess að fólk tekur í minna mæli lán til að kaupa íbúðir eða þvottavélar eða aðra stærri hluti. Fiskvinnslufyrirtæki frestar því að fjárfesta í nýjum vinnslulínum því hærri vextir gera kaupin ekki eins hagstæð og áður.

7.5.4       Lán og verðtrygging

Verðbólga hefur áhrif á lán okkar. Flest lán til lengri tíma eru verðtryggð en einnig er talað um að þau séu vísitölutryggð. Flest íbúðarlán eru t.d. verðtryggð. Verðtrygging lána þýðir að við verðum að greiða bankanum bæði vexti og auk þess verðum við að greiða honum það sem lánið hækkaði vegna verðbólgunnar. Afborganir af lánum okkar hækka því við háa verðbólgu. Greiðslubyrði af lánum þyngist þó aðeins ef verðlag hækkar meira en laun. Það gerist oft þegar horft er á nokkur ár eða svo, en þegar horft er yfir lengra tímabil, til dæmis nokkra áratugi, hækka laun að jafnaði meira en verðlag.

7.5.5       Gengi gjaldmiðla

Við kaupum erlendan gjaldeyri fyrir íslenskar krónur. Það hversu margar krónur þarf til að kaupa eina evru eða einn Bandaríkjadal ræðst af skráningu á gengi krónunnar eða gengisskráningu. Ef verð á einni evru hækkar t.d. úr 110 kr í 121 kr hefur krónan fallið í verði um 10% en einnig er talað um 10% gengislækkun íslensku krónunnar. Fari verð á evru hins vegar í 100 kr er talað um að krónan hafi hækkað í verði um 10% en einnig er talað um 10% gengisstyrkingu.

7.5.6       Gengislækkun

Ef gengi íslensku krónunnar fellur hækkar verð á innfluttum vörum. Sem dæmi þá hækkar verð á þvottavél sem er framleidd í Þýskalandi (en Þýskaland notar evrur) þegar fjölskylda borgar fyrir hana í raftækjaverslun vegna þess að hún er greidd með íslenskum krónum en ekki evrum. Kaupmáttur fjölskyldunnar er þar af leiðandi minni en hann var fyrir gengisfall krónunnar.

Hins vegar hækka tekjur fyrirtækja sem flytja út fisk vegna þess að fyrirtækin fá fleiri krónur fyrir hvert kíló af karfaflökum sem þau selja til Þýskalands. Ástæðan er sú að fyrirtækin selja í evrum til Þýskalands og skipta þeim svo í íslenskar krónur hér á landi til þess að greiða laun og annan kostnað. Útflutningsfyrirtæki er því betur stödd og skila meiri hagnaði sem gerir þeim meðal annars kleift að greiða hærri laun. Ýmiss erlendur kostnaður hækkar hjá útgerðarfyrirtækjum, t.d. hækkar olían á skipin í verði. Hlutur sjómanna hækkar í krónum talið þegar gengið lækkar. Á móti hækkar olía í verði við gengislækkunina og við það lækka laun sjómanna.

7.5.7       Gengishækkun

Þegar íslenska krónan verður sterkari gagnvart erlendum gjaldeyri er talað um gengishækkun. Þá þarf t.d. færri krónur til að kaupa evrur. Sumarfríið til Spánar kostar þess vegna færri krónur. Sterkari króna stuðlar að lægra verði á innfluttum vörum sem er gott fyrir neytendur. Það er hins vegar ekki gott fyrir útflutningsfyrirtæki, því þá fá þau færri krónur fyrir vörurnar sem þau selja til útlanda og standa því verr.

7.5.8       Gengi og verðbólga

Gengislækkun leiðir til hækkunar í verði innfluttra vara sem leiðir til verðbólgu.

Sem dæmi má taka krukku af hunangi sem kostaði 290 kr. í byrjun árs. Ári síðar kostar samskonar krukka 310 kr. Innflutta hunangið hefur hækkað um 20 kr. í verði eða um 7%. Ef allar aðrar vörur og þjónusta hækka um svipaða prósentu á sama 12 mánaða tímabili þá má segja að árs verðbólgan hafi verið u.þ.b. 7%