HANDBÓK TRÚNAÐARMANNSINS

KAFLI 9

ASÍ og BSRB

9.1 ASÍ
9.2 BSRB
9.3 Nánari upplýsingar


 9.1     ASÍ

ASÍ eru stærstu og öflugustu heildarsamtök launafólks hér á landi og sækja styrk sinn til samstarfs og samstöðu aðildarsamtaka og félagsmanna. ASÍ er samnefnari og samstarfsvettvangur landssambanda og stéttarfélaga sem eiga aðild að sambandinu. Félagsmenn í ASÍ eru 123 þúsund í fimm landssamböndum og 49 aðildarfélögum um land allt (árið 2017). Þar af eru um 72.000 virkir á vinnumarkaði. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ starfa á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Þjónusta við landssamböndin og aðildarfélögin er mikilvægur þáttur í starfi ASÍ. Alþýðusambandið er bakhjarl og sameiningarafl aðildarfélaga sinna og miðlar upplýsingum, bæði til félaganna og út á við til samfélagsins.

  • ASÍ er vettvangur fyrir þekkingaruppbyggingu og stefnumótun í málum sem varða hagsmuni launafólks í víðasta skilningi. Það gildir m.a. um efnahags-, atvinnu-, vinnumarkaðs- og félagsmál og almenna velferð launafólks. Þá hefur ASÍ lagt sig sérstaklega fram um að byggja upp þekkingu á Evrópumálum, taka virkan þátt í stefnumótun á þeim vettvangi og fylgja því eftir að íslenskt launafólk njóti þeirra réttinda sem Evrópusamvinnan getur skilað.
  • ASÍ kemur fram fyrir hönd aðildarsamtaka sinna í sameiginlegum málum, m.a. gagnvart stjórnvöldum, samtökum atvinnurekenda, alþjóðasamtökum og stofnunum og öðrum samtökum launafólks.
  • ASÍ veitir aðildarsamtökum sínum, landssamböndum og aðildarfélögum, margháttaða þjónustu og aðstoðar þau við að styrkja eigin starfsemi. Þetta gildir um þekkingar- og upplýsingastarfsemi af ýmsu tagi, námskeiðahald fyrir forystumenn, starfsmenn og trúnaðarmenn aðildarsamtakanna og faglega aðstoð og ráðgjöf.

9.1.1       Samfélagsleg sýn ASÍ

Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi.

Alþýðusambandið vill samfélag þar sem undirstaða góðra lífskjara er öflugt atvinnulíf sem býður launafólki trygga atvinnu, góð störf og góð kjör. Einnig leggur sambandið áherslu á fjölskylduvænan vinnumarkað sem byggist á traustum réttindum launafólks, þekkingu og hæfni, þar sem hægt er að hafa jafnvægi milli vinnunnar og fjölskyldu- og einkalífs, auk þess að eiga rétt á og möguleika til starfsþróunar og símenntunar.

Barátta og starf verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað launafólki og samfélaginu miklum ávinningum. Fátt er líkt með kjörum og aðbúnaði launafólks nú og í árdaga stéttarfélaganna. Hlutverk ASÍ er að taka virkan þátt í að móta síbreytilegt samfélag út frá hagsmunum og þörfum launafólks.

Alþýðusambandið vill byggja upp samfélag þar sem jöfnuður, réttlæti og velferð eru tryggð.

9.1.2       Félagsmenn

Félagsmenn í aðildarfélögum koma úr öllum greinum atvinnulífsins og af öllum sviðum vinnumarkaðarins. Þeir starfa í verslun og þjónustu af öllu tagi, iðnaði, hótel- og veitingagreinum, við bygginga- og mannvirkjagerð, sjávarútveg, flutninga og í félags- og heilbrigðisþjónustu af ýmsu tagi. Með breytingum á vinnumarkaði og í atvinnulífinu á síðustu árum og áratugum hefur orðið mikil breyting á samsetningu félagsmanna innan ASÍ. Mikill vöxtur hefur orðið í verslun og þjónustu á sama tíma og störfum hefur fækkað í fiskvinnslu og öðrum framleiðsluiðnaði. Samhliða hafa einnig orðið miklar breytingar á menntunarstigi félagsmanna í Alþýðusambandinu. Hópur félaga með framhalds- og háskólamenntun hefur vaxið ört á síðustu árum, á sama tíma og félagsmönnum með litla eða enga formlega starfsmenntun úr skólakerfinu eða endur- og eftirmenntun, fer stöðugt fækkandi.

9.1.3       Uppbygging ASÍ

Æðsta vald í málefnum Alþýðusambands Íslands er á sambandsþingi sem haldið er á tveggja ára fresti. Þar eru mótaðar helstu línur í stefnu og starfsemi sambandsins. Rétt til setu á þinginu eiga 290 fulltrúar aðildarsambanda og landsfélaga innan ASÍ. Þingið kýs forseta, tvo varaforseta og 13 fulltrúa í miðstjórn ASÍ. Miðstjórnin fer með málefni sambandsins á milli þinga og hittist að jafnaði tvisvar í mánuði yfir veturinn. Miðstjórn ASÍ ber ábyrgð á undirbúningi þingsins og stefnumótun, og sér um að ákvörðunum þingsins sé fylgt eftir.

Starfsnefndir miðstjórnar ASÍ eru mikilvægur þáttur í allri málefnavinnu og stefnumótun sambandsins. Þær hafa frumkvæði að stefnumótun ASÍ, hver á sínu sviði, og fylgja eftir samþykktum miðstjórnar og þinga. Heiti nefndanna gefur góða hugmynd um verkefni þeirra en þær eru þessar:

  • Alþjóðanefnd
  • Atvinnumálanefnd
  • Jafnréttis- og fjölskyldunefnd
  • Efnahags – og skattanefnd
  • Menntanefnd
  • Skipulags- og starfsháttanefnd
  • Velferðarnefnd
  • Vinnumarkaðsnefnd
  • Lífeyris- og veikindanefnd
  • Umhverfisnefnd

Í starfsnefndunum starfa, auk fulltrúa miðstjórnar, fulltrúar frá landssamböndum ASÍ, landsfélögum með beina aðild að sambandinu og starfsmaður af skrifstofu ASÍ.

9.1.4       ASÍ sem málsvari launafólks

Þau mál sem Alþýðusambandið beitir sér fyrir og hefur afskipti af eru margvísleg og snerta nánast öll svið samfélagsins, enda er ljóst að hagsmunir launafólks liggja víða. Þá á ASÍ samskipti við margar stofnanir, samtök og einstaklinga. Þar má nefna:

Alþingi. ASÍ á mikil samskipti við þingmenn og nefndir Alþingis. Leitað er eftir upplýsingum um og skoðunum Alþýðusambandsins á mörgum málum sem koma fyrir þingið. Auk þess hefur ASÍ sjálft frumkvæði að samskiptum við Alþingi. ASÍ veitir umsagnir um þingmál og gefur álit sitt með skriflegum hætti og á fundum þingnefnda. Sem dæmi má nefna fjárlög ár hvert,       skattamál og málefni sem varða vinnumarkaðinn, atvinnu- og félagsmál.

Stjórnvöld. ASÍ kemur fram fyrir hönd launafólks í samskiptum við stjórnvöld. Fulltrúar ASÍ eiga sæti í fjölda nefnda og stjórna á vegum hins opinbera, þar sem hlutverk þeirra er að gæta hagsmuna launafólks við undirbúning löggjafar og framkvæmd. Sem dæmi má nefna: Vinnueftirlit ríkisins, Ábyrgðasjóð launa, Atvinnuleysistryggingasjóð, Vinnumálastofnun, Vísinda- og tækniráð, Jafnréttisráð og þríhliða nefnd um Alþjóðavinnumálastofnunina.

Samtök atvinnurekenda. ASÍ kemur fram fyrir hönd sambanda sinna í sameiginlegum málum gagnvart samtökum atvinnurekenda. Þetta á m.a. við um sameiginleg atriði kjarasamninga í samræmi við ákvörðun aðildarfélaganna hverju sinni. Hér má sem dæmi nefna mat á samningsforsendum og kaupmáttarmarkmiðum kjarasamninga, samninga um gildistöku réttinda á grundvelli Evrópureglna, sameiginlega þætti fræðslu- og menntamála og málefni lífeyrissjóða. Þá eiga Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins samstarf um kjararannsóknir á vettvangi Kjararannsóknarnefndar.

Önnur samtök launafólks, félagasamtök og stofnanir. ASÍ hefur samskipti við önnur samtök launafólks um sameiginleg hagsmunamál og úrlausnarefni, s.s. í jafnréttis- og vinnuverndarmálum og fræðslumálum. Þá á ASÍ samstarf við fjölda félagasamtaka og stofnana samfélagsins um fjölmörg mál sem varða hagsmuni launafólks og fjölskyldna þess. Það á m.a. við um velferðarkerfið, stöðu þess og þróun, skólakerfið og menntamál almennt og húsnæðismál.

Alþjóðasamtök og stofnanir. ASÍ er fulltrúi íslensks launafólks í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingunni. ASÍ kemur fram fyrir hönd launafólks gagnvart Fríverslunarsamtökum Evrópu – EFTA, Evrópska efnahagssvæðinu – EES, Alþjóðavinnumálastofnuninni – ILO og Ráðgjafarnefnd Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu – OECD.

Fyrir liggur að þróun á alþjóðavettvangi hefur margvísleg bein og óbein áhrif á hagsmuni launafólks hér á landi. Jafnframt lítur Alþýðusambandið þannig á að það hafi skyldur gagnvart verkalýðshreyfingu og launafólki á alþjóðavísu, ekki síst í þróunarríkjunum.

9.1.5       Þekking og færni

Afl og áhrif Alþýðusambandsins á hverjum tíma ráðast fyrst og fremst af samstöðu og samstarfi aðildarsamtakanna og framlagi forystumanna þeirra og fulltrúa í stofnunum ASÍ og málefnanefndum. Auk þess telur Alþýðusambandið mikilvægt að treysta þennan grunn með því að byggja upp öfluga þekkingu og hæfni hjá starfsfólki á skrifstofu ASÍ. Þar hefur áhersla verið lögð á að samtökin eigi talsmenn í fremstu röð á eftirtöldum sviðum:

  • Efnahags-, atvinnu- og kjaramálum
  • Vinnurétti og á sviði lögfræðilegra álitaefna
  • Félags-, mennta- og vinnumarkaðsmálum
  • Fræðslu- og þekkingaruppbyggingu fyrir forystumenn, starfsmenn og trúnaðarmenn aðildarsamtakanna, þá sem eru „talsmenn“ verkalýðshreyfingarinnar og launafólks

Þá leggur ASÍ mikla áherslu á að skrifstofa sambandsins búi yfir:

  • Yfirgripsmikilli þekkingu á alþjóðamálum og þá sérstaklega því sem snýr að Evrópusamvinnu, þróun hennar og hagsmunum launafólks.
  • Tækjum og þekkingu og stundi markvissa upplýsingamiðlun til aðildarsamtakanna og félagsmanna þeirra um stefnu og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar, réttindi og skyldur launafólks og kynni sjónarmið og hagsmuni launafólks í samfélaginu.

9.1.6       Af hverju heildarsamtök launafólks?

Þau sjónarmið sem liggja til grundvallar samtökum launafólks eru um margt þau sömu og fyrir einni öld síðan. Á sama hátt eru þau sjónarmið sem heildarsamtök launafólks byggjast á, þau sömu og í árdaga verkalýðshreyfingarinnar:

  • Samstaða og samstarf stéttarfélaganna stuðlar að öflugri hagsmunagæslu og auknum möguleikum til að hafa áhrif á þróun samfélagsins og hagsmuni launafólks.
  • Sterk heildarsamtök skapa skilyrði fyrir markvissri þekkingaruppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar og stöðu til að skiptast á skoðunum og takast á við samtök atvinnurekenda og stjórnvöld um ólíkar áherslur og markmið í efnahags-, atvinnu-, vinnumarkaðs- og félagsmálum.

Þá er ljóst að alþjóðavæðingin og margháttaðar skuldbindingar og réttindi í gegnum alþjóðlegt samstarf hafa skapað samtökum launafólks nýja stöðu, ný verkefni að vinna úr og ný tækifæri til að hafa áhrif á og móta starfsumhverfi og kjör launafólks. Það sama gildir um aukið markaðsfrelsi, nýja stjórnunarhætti í fyrirtækjum og skipulagningu vinnunnar. Það er hins vegar val félagsmanna stéttarfélaganna og sambandanna hvort þeir vilja standa utan Alþýðusambands Íslands eða taka virkan þátt í starfi sameinaðrar verkalýðshreyfingar, hafa áhrif á starf hennar og stefnu og eiga með þátttöku sinni tilkall til þeirrar þekkingar og þjónustu sem þangað er hægt að sækja.


 9.2     BSRB

BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Bandalagið hét áður Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en heitir nú einfaldlega BSRB eftir breytingu á lögum þess árið 2015. Aðildarfélög bandalagsins eru 25 talsins og er fjöldi félagsmanna rúmlega 21.000. Um tveir þriðju félagsmanna eru konur. Aðild að bandalaginu eiga stéttarfélög launafólks sem starfar hjá hinu opinbera, hvort sem er beint hjá ríki og sveitarfélögum eða hjá fyrirtækjum í þeirra eigu sem starfa í almannaþágu. Félaga í BSRB er að finna víða í samfélaginu. Þeir starfa á skrifstofum sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana, sem sjúkraliðar á fjölmörgum stofnunum, við löggæslu og tollgæslu, sem slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn og flugumferðarstjórar, svo fátt eitt sé nefnt. Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi.

Bandalagið gætir einnig hagsmuna almennings í víðara samhengi með því að beita sér fyrir stöðugleika og réttlæti í samfélaginu. BSRB beitir sér fyrir félagslegum stöðugleika, því að launafólki sé búið félagslegt öryggi svo það geti mætt afleiðingunum af slysum og veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Einnig fyrir því að öldruðum og öryrkjum sé tryggður lífeyrir sem geri þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Grundvöllurinn að slíku kerfi er réttlátt skattkerfi sem rekið er með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Það er grundvallarstefna BSRB að almannaþjónustuna verði að reka á samfélagslegum grunni þar sem allir eigi jafnan rétt, óháð efnahag.

BSRB fer með samningsrétt í sameiginlegum málum aðildarfélaga auk þess að semja sameiginlega fyrir félögin um þau mál sem því er falið hverju sinni. Kjarasamningsgerð er í höndum einstakra aðildarfélaga en bandalagið styður og eflir aðildarfélögin við þá vinnu, sem og við hagmunagæslu gagnvart félagsmönnum. Þá vinnur bandalagið að samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðlar að jafnræði þeirra í framkvæmd þjónustu til félagsmanna. Bandalagið vinnur jafnframt að fræðslu- upplýsinga- og menningarstarfsemi og jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði. Þá vinnur BSRB að aukinni samstöðu, samstarfi og tengslum í stéttarfélagsmálefnum innanlands og erlendis.

9.2.1       Saga og þróun

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, nú BSRB, var stofnað 14. febrúar 1942 af fjórtán félögum opinberra starfsmanna með alls um 1.550 félaga. Tilkoma BSRB hleypti nýjum krafti í kjarabaráttu opinberra starfsmanna sem varð hvort tveggja í senn, öflugri og sýnilegri en fyrr. Þegar á fyrstu starfsárunum náðu BSRB og aðildarfélögin umtalsverðum árangri í réttinda- og kjaramálum. Skýrt dæmi þar um eru lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins frá árinu 1943. Fyrir nýstofnuð samtök var lífeyrissjóðslöggjöfin mikill sigur og sést ef til vill best á því að það var ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar að farið var að stofna almenna lífeyrissjóði fyrir launafólk. Árið 1962 fékk BSRB samningsrétt gagnvart ríkinu en áður höfðu laun verið ákvörðuð með lögum. Starfsmannafélög sveitarfélaga höfðu sjálf samningsrétt. Frá upphafi hafa heildarsamtökin tvisvar farið í allsherjarverkfall, fyrst árið 1976 og svo aftur árið 1984.

9.2.2       Starfsemi og skipulag

Þing BSRB eru haldin þriðja hvert ár og fara með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. Á milli þinga fylgir Formannaráð BSRB eftir stefnu þinga og mótar áherslur bandalagsins til næsta þings. Ráðið er skipað formönnum aðildarfélaga bandalagsins og fundar að jafnaði ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Formaður BSRB er jafnframt formaður ráðsins.

Stjórn BSRB fer með æðsta vald í málefnum bandalagsins milli þinga og aðalfundar. Hún stýrir starfsemi bandalagsins í samræmi við samþykktir BSRB og stefnumörkun þings, formannaráðs og aðalfundar. Í stjórninni sitja níu manns. Formaður BSRB er jafnframt formaður stjórnarinnar. Í henni sitja einnig fyrsti og annar varaformaður BSRB ásamt sex stjórnarmönnum sem kjörnir eru á þingi bandalagsins. Þá eru fjórir varamenn jafnframt kosnir á þingi BSRB. Aðalfundur bandalagsins er haldinn fyrir 1. júní ár hvert til að fara yfir skýrslu stjórnar, reikninga bandalagsins og fjárhags- og framkvæmdaáætlanir. Á milli þinga vinna starfsnefndir BSRB að málefnastarfi bandalagsins. Stjórn BSRB ákveður í kjölfar þinga hvaða nefndir verði starfandi fram að næsta þingi. Skrifstofa BSRB er til húsa í Félagamiðstöðinni að Grettisgötu 89 í Reykjavík. Starfsmenn bandalagsins inna af hendi margvíslega þjónustu við aðildarfélögin, svo sem hagfræði- og lögfræði- og upplýsingaþjónustu. Þá innheimtir bandalagið félagsgjöld aðildarfélaga og veitir þeim ýmiskonar aðra þjónustu. Hluti af verkefnum BSRB er samstarf við önnur samtök launafólks, fyrst og fremst hér á landi en einnig erlendis. Bandalagið vinnur náið með Alþýðusambandi Íslands (ASÍ), Bandalagi háskólamanna (BHM) og Kennarasambandi Íslands (KÍ) vegna sameiginlegra hagsmunamála. BSRB á einnig í samstarfi við erlend samtök launafólks. Megin þunginn í því samstarfi hefur verið í gegnum Norræna verkalýðssambandið (NFS) en bandalagið á einnig aðild að Evrópusambandi verkalýðsfélaga (ETUC) og Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga (ITUC).

9.2.3       Fræðslumál

BSRB leggur mikla áherslu á símenntun félagsmanna aðildarfélaga bandalagsins. Námskeiðshald og fræðsla sem BSRB stendur fyrir fer fram hjá fræðslusetrinu Starfsmennt. Félagsmálaskóli alþýðu býður upp á námskeið fyrir trúnaðarmenn, auk annarra vinsælla námskeiða. Þá eru öll aðildarfélög BSRB með ákvæði um starfsmenntunarsjóði.


 9.3     Nánari upplýsingar

Vefsíður stéttarfélaga og landssambanda:

Alþýðusamband Íslands: www.asi.is

BSRB: https://www.bsrb.is

Fæðingarorlofssjóður: http://www.faedingarorlof.is

Vinnueftirlitið: http://www.vinnueftirlit.is/

Jafnréttisstofa: www.jafnretti.is

Vinnumálastofnun: www.vmst.is

Tryggingarstofnun ríkisins: www.tr.is

Landssamband lífeyrissjóða: www.ll.is