NÁMSKRÁ

Trúnaðarmaðurinn – starf hans og staða

Námslýsing:

Megináhersla er lögð á störf trúnaðarmanna stéttarfélaga og rétt þeirra til trúnaðarmannastarfa samkvæmt lögum og kjarasamningum. Lögð er áhersla á hvernig tekið er á móti umkvörtunum og hvernig er unnið skipulega til að leysa úr þeim; hvernig samtali er stýrt til upplýsingaöflunar og mismunandi spurnarform notuð.

Kynnt eru helstu einkenni nokkurra algengra stjórnunarstíla og hlutverk leiðtoga í ljósi þess að trúnaðarmaður hefur ekki boðvald en verður að vinna sér traust og virðingu til að fá áhrifavald. Farið er yfir ólíka stjórnunarstíla, samskiptamynstur og mismunandi framkomu fólks, svo sem ákveðni, óákveðni og ágengni.

Áhersla er lögð á að nemendur geti tileinkað sér aðferðir sem leiða til samheldni og sátta um niðurstöður. Þá er Handbók trúnaðarmannsins kynnt og farið yfir efnisþætti hennar.

Helstu efnisþættir:

Hlutverk trúnaðarmanna á vinnustöðum, miðlun upplýsinga, upplýsingaleit, viðtöl við samstarfsmenn, kjarasamningsbundinn réttur trúnaðarmanna.

Markmið og hæfniviðmið:

Að nemendur:

  • Þekki í hverju störf trúnaðarmanna er fólgið og hvaða körfur eru gerðar til þeirra.
  • Átti sig á réttindum og skyldum sem trúnaðarmenn hafa.
  • Þekki hvernig kosning trúnaðarmanna fer fram, ásamt ákvæðum laga og kjarasamninga um kjör þeirra og störf.
  • Þekki mismunandi stjórnunarstíla og geti greint á milli þeirra.
  • Geri sér grein fyrir mikilvægi árangursríkra samskipta við samstarfsmenn, stéttarfélög og stjórnendur.
  • Geri sér grein fyrir áhrifum góðrar upplýsingamiðlunar til samstarfsmanna og samvinnu við stjórnendur og stéttarfélög.