NÁMSKRÁ

Lestur launaseðla – launaútreikningar

Námslýsing:

Megináhersla er á skilning námsmanna á uppbyggingu launaseðla og skyldur atvinnurekenda um upplýsingar jafnhliða launagreiðslum. Þjálfun í útreikningum á dagvinnu,  yfirvinnu, stórhátíðarkaupi og vinnutíma eru mikilvægir þættir í náminu. Farið er yfir hvaða reglur gilda samkvæmt vinnulöggjöfinni, s.s. hvað atvinnurekanda ber að draga frá launum starfsmanna samkvæmt lögum og kjara­samningum og hvaða frádráttur er ekki heimill. Þá verður einnig farið yfir mikilvægi varðveislu launaseðla og gildi þeirra sem kvittunar ef erfiðleikar koma upp í rekstri fyrirtækja.  Einnig þurfa nemendur að þekkja tímarammann sem starfsmenn hafa til að gera athugasemdir við launa- og vinnutímaút­reikninga.

Helstu efnisþættir:

Mánaðarlaun fyrir dagvinnu, dagvinnulaun, yfirvinnugreiðslur, orlofsprósenta eftir fjölda orlofsdaga, lífeyrissjóðsiðgjöld, staðgreiðsla, persónuafsláttur, skattþrep.

Markmið og hæfniviðmið:

Að nemendur:

  • Kynnist helstu hugtökum sem tengjast launaútreikningum, launaliðum, frádráttarliðum.
  • Geri sér grein fyrir áhrifum tómlætis launamanna við yfirferð launaseðla og nauðsyn þess að yfirfara þá.
  • Verði meðvitaðir um hvernig launaliðir eru reiknaðir, launamyndun og skattur er reiknaður.
  • Þekki til launaútreikninga og frádráttarliða og hvað ber að gera þegar laun eru ekki rétt, skyldu launagreiðanda að gera skil á skatti og launatengdum gjöldum.