NÁMSKRÁ

Vinnueftirlit – vinnuvernd

Námslýsing:

Megináhersla er lögð á hugmyndafræði sem vinnuverndarlögin byggjast á. Áhersla er á skipulag vinnuverndarstarfs í fyrirtækjum, starf öryggistrúnaðarmanns og öryggisvarðar auk hlutverks og ábyrgðar trúnaðarmanna stéttarfélaga sem og starfsfólks. Fjallað er um starfsemi Vinnueftirlitsins og hvernig má vinna með vinnuverndarlögin, önnur lög, reglur og samninga sem eru til að bæta „lífið í vinnunni“.  Jafnframt er farið yfir starfsemi VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs, hugmyndafræði og tilgang sjóðsins.

Helstu efnisþættir:

Gerð áhættumats, eftirlit, vinnuumhverfisvísar og starfsendurhæfing.

Markmið og hæfniviðmið:

Að nemendur:

  • Þekki hlutverk og ábyrgð öryggistrúnaðarmanna, öryggisvarða og félagslega kjörinna trúnaðar­manna samkvæmt lögum og reglugerðum sem snerta vinnuvernd.
  • Átti sig á hlutverki Vinnueftirlitsins og VIRK .
  • Verði færir um að stuðla að öruggara starfsumhverfi starfsmanna.
  • Þekki helstu lög, reglur og samninga er varða aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum.
  • Þekki reglugerð um áhættumat á vinnustað.
  • Þekki til málaflokka vinnuverndar og hvaða stoðþjónusta er í boði.