NÁMSKRÁ

Þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn

Námslýsing:

Megináhersla er lögð á uppbyggingu vinnumarkaðarins auk skipulags og hlutverka hagsmunasamtaka launafólks og launagreiðenda. Farið er yfir uppbyggingu stéttarfélaga, kjarasamningagerð, ráðningarsamninga, réttindagæslu og því baklandi sem félögin eru félagsmönnum, skipulag og hlutverk hagsmunasamtaka launafólks og atvinnurekenda, gildi kjarasamninga og hagræn áhrif þeirra.  Kynntar eru niðurstöður um þróun launakjara, vinnuaflsþörf og mannfjöldaspár. Einnig er lögð áhersla á lýðræði í samfélaginu, muninn á beinu lýðræði og fulltrúalýðræði og hvernig lýðræðið er notað við ákvarðanatöku, m.a. hjá stéttarfélögum og í þjóðfélaginu. Jafnframt er farið yfir réttindi félagsmanna í sjóðum stéttarfélaganna, svo sem sjúkrasjóðum, vinnudeilusjóðum, starfsmenntasjóðum og orlofssjóðum.

Helstu efnisþættir:

Lýðræði, kosningaréttur, opinber og almennur vinnumarkaður, verkalýðshreyfingin, samningsréttur, vinnuréttur,  gildi kjarasamninga, lágmarkslaun, markaðslaun og sjóðir félaganna.

Markmið og hæfniviðmið:

Að nemendur:

  • Kynnist hugtökum sem tengjast lýðræði og lýðræðislegum rétti einstaklinga, vinnumarkaði, réttindum og skyldum launamanna og atvinnurekenda á vinnumarkaði,  stéttarfélögum, gildi kjarasamninga og ráðningarsamningum.
  • Geri sér grein fyrir áhrifum og ábyrgð sem einstaklingar hafa í lýðræðislegu þjóðfélagi og mikilvægi þátttöku í ákvarðanatöku.
  • Verði meðvitaðir um hvernig íslenskur vinnumarkaður er uppbyggður, hvernig stéttarfélög og verkalýðshreyfingin starfar og hvernig kjarasamningar eru uppbyggðir.