NÁMSKRÁ

Nám trúnaðarmanna

Félagsmálaskólinn sinnir viðamiklu hlutverki í fræðslu trúnaðarmanna. Öll fræðslan byggir á námmsskrá þar sem tilteknir námsþættir eru ákvarðaðir útfrá þörfum hópsins. Námsskráin er vottuð af Menntamálastofnun.

Hér til hliðar er hægt að smella á og skoða einstaka námsþætti en hún er einnig aðgengileg hér að neðan fyrir þá sem vilja prenta hana út eða lesa í heilu lagi hér á vefnum.

Námskrá

Trúnaðarmannanámið lýsir námi á 2. þrepi hæfniramma um íslenskt menntakerfi, skipt í 11 námsþætti. Námið er ætlað trúnaðarmönnum stéttarfélaga á vinnustöðum. Tilgangur námsins er að auðvelda trúnaðarmönnum að takast á við verkefni sem þeim eru falin, að þeir efli sjálfstraust sitt og lífsleikni auk þess að námið stuðli að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms. Trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélaga á vinnustaðnum og tenging við félagsmenn. Hlutverk trúnaðarmanna er að kynna sér helstu málefni og vandamál sem brenna á starfsmönnum og leita hugsanlegra lausna. Þeim ber að vinna að bættum kjörum starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á, þeir eru talsmenn félagslegs öryggis og atvinnuöryggis, skynsamlegra stjórnunarhátta á vinnustaðnum og eru samráðsaðilar vegna breytinga á vinnustaðnum.

Námsmenn fá tækifæri til að spreyta sig á margvíslegan hátt. Verkefnavinna, hlutverkaleikir, verklegar æfingar upp á eigin spýtur eða í hópi, rökræður, umræður og sjálfsmat eru dæmi um aðferðir sem notaðar eru í því skyni að sem flestir finni námstækni og námshraða við sitt hæfi. Í trúnaðarmannanáminu er lögð áhersla á að námsmenn læri að læra og efli sjálfstraust sitt.

Námsárangur er metinn út frá hæfniviðmiðum námsskrár. Leiðbeinandi metur námsferlið og notar símatsaðferðir til að staðfesta að námsmenn hafi náð lokamarkmiðum námsins á viðunandi hátt svo og markmiðum námsþátta námsins. Í trúnaðarmannanáminu eru ekki lögð fyrir formleg próf en mikil áhersla lögð á að leiðbeinandi og námsmenn fari sem oftast yfir það sem hefur áunnist og framfarir hjá námsmönnum séu tryggðar. Í lok hvers hluta fyrir sig, fara námsmenn yfir hverju námið hefur skilað. Námsmenn bera saman stöðu sína í lok námsins við væntingar sem þeir gerðu sér í upphafi. Þeir leggja mat á námið, markmið námssins, skipulag vinnunnar, leiðbeinendur og aðra þætti.

Viltu prenta námskrána, hlaða henni niður eða lesa í heild á vefnum? 

Námskrá – pdf