Einelti á vinnustað

Félagsleg útilokun og einangrun í starfi

Ein algeng birtingarmynd eineltis er félagsleg útilokun og einangrun starfsmanns.

Samstarfsmenn láta sem þeir sjái ekki þolanda, neita að svara honum eða svara ekki ef hann spyr. Honum er sýnt fram á að honum leyfist ekki að yrða á aðra. Það sest enginn hjá honum eða þá að samstarfsmenn þagna og standa upp þegar hann sest hjá þeim.

Þolandi er meðhöndlaður sem dauður hlutur. Hann fær ekki að taka þátt í því sem starfsmenn gera sameiginlega utan vinnu og er ekki látinn vita þegar eitthvað stendur til.

Þolandi er látinn fá vinnu eða verkefni sem einangra hann frá öðrum. Vinnuaðstaðan er aðskilin frá öðrum svo hann er í litlum tengslum við aðra. Það er ekki leitað álits eða fagþekkingar hans og starfsmönnum gert ljóst að þeir eigi hvorki að snúa sér til hans með verkefni né spurningar. Þolandi fær enga aðstoð frá samstarfsmönnum.

Dæmi:

Ásgerður hefur unnið sem starfsstúlka á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í rúmt ár. Starfið á mjög vel við hana og hún nær vel til sjúklinganna. Það sama er ekki hægt að segja um samskipti hennar og vinnufélaganna.

Þegar Ásgerður fer í kaffi þá þagna allir, snúa sér undan eða jafnvel fara. Þuríður á það til að muldra ofan í barminn svo Ásgerður heyri: „Þurfti hún nú endilega að koma í kaffi núna?“ Einu sinni heyrði hún Siggu segja: „Það var svo frábært að vinna hérna, alveg þangað til að sumir byrjuðu.“ Andrúmsloftið er orðið vægast sagt mjög þrúgandi og Ásgerður hefur ekki hugmynd um af hverju það er svona. Hún er farin að kvíða fyrir því að mæta í vinnuna.

Hvað myndir þú gera í sporum Ásgerðar til að taka á málunum?