EINELTI Á VINNUSTAÐ

Skaðlegt starfsumhverfi

Verkefni og störf sem þolandi fær eru skaðleg heilsu hans. Verkfæri og vinnuaðstaða eru skert eða takmörkuð sem getur haft áhrif á heilsu. Vinnuumhverfi er skaðlegt og vinnufatnaður ófullnægjandi sem getur valdið slysum. Líkamlegu ofbeldi er hótað sem veldur því að þolandi lifir í stöðugum ótta og stundum er ofbeldi beitt.

Kynferðisleg áreitni

Gefið er til kynna með líkamlegri nálgun, snertingu eða látbragði, raddblæ og augnaráði að gerandi hafi kynferðislegan áhuga á þolanda sem er algjörlega gegn vilja hans. Gerðar eru kröfur og þrýstingur á þolanda um kynferðislegt samneyti og er hann ásakaður um að ýta undir það með hegðun sinni og klæðnaði. Þolandi situr undir bröndurum og spurningum sem niðurlægja hann sem kynveru. Nauðgun og tilraun til nauðgunar eru grófustu myndir kynferðislegs ofbeldis.

Ótti og óöryggi vinnufélaga

Ef þú treystir þér ekki til að taka afstöðu og gera neitt til að styðja þolanda, veltu þá fyrir þér afhverju. Eiga atriðin hér fyrir neðan við?

• Ótti við að verða tekin/n fyrir ef þú gerir eitthvað til að sýna þolanda stuðning.

• Fegin/n að vera ekki sá/sú sem er tekin/n fyrir.

• Það eru fleiri en þú sem sjá hvað er að gerast. Það er ekkert frekar þitt að gera eitthvað í málunum.

• Þú veist ekki hvað þú getur gert og ef til vill verður allt verra ef þú ferð að gera eitthvað.

Ertu sátt/ur við þessa afstöðu?