EINELTI Á VINNUSTAÐ

Afleiðingar eineltis

Einelti getur haft alvarlegar og afgerandi afleiðingar fyrir þolendur bæði andlegar og líkamlegar. Afleiðingarnar eru þó mjög einstaklingsbundnar.

Andleg einkenni geta verið einbeitingarskortur, minnisleysi, áhugaleysi, þunglyndi, skortur á sjálfstrausti, nagandi efasemdir, ofur viðkvæmni, pirringur, úrræðaleysi, hvatvísi, martraðir.

Líkamleg einkenni geta verið magaverkir, meltingartruflanir, höfuðverkur, svefnleysi, lystarleysi, vöðvabólga, bakverkir, öndunartruflanir og svitakóf. Aukið álag og ofstreita þolanda hefur þær afleiðingar að hann á erfitt með að taka á eineltinu. Þess vegna er hætta á að hann bregðist við án þess að íhuga vandlega hvað sé skynsamlegt að gera til að sporna við eineltinu. Stundum geta viðbrögð þolanda þess vegna virkað espandi og honum þess vegna kennt um hvernig komið er, sem er auðvitað rangt.

Það skiptir miklu máli að þolandi ákveði meðvitað hvað hann gerir og hvernig hann bregst við. Það er ekki til nein ein rétt leið eða uppskrift við að leysa einelti.

Efi og óöryggi togast oft á innra með þolanda og þá getur verið erfitt að vita hvað er skynsamlegt að gera.

Flótti frá aðstæðum

Þolandi tekur ekki á aðstæðum vegna þess að hann sér enga mögulega úrlausn. Hann ákveður því að láta lítið fyrir sér fara, forðast geranda, eða reynir að halda honum góðum. Flótti getur verið uppgjöf og skilaboð til annarra um að þolandi geti ekki varið sig og jafnvel að það sé í lagi að ráðist sé á hann. Í sumum tilfellum hins vegar getur verið skynsamlegt að láta lítið fyrir sér fara og ef til vill dregur úr ofbeldinu.

Mótárás á gerendur

Þolanda finnst sér ógnað og hefur ekki stjórn á því sem hann segir og gerir og öll viðbrögð hans eru hvatvís. Það leysir ekki eineltið því allt sem hann gerir er óhugsað og ómarkvisst. Hvatvís viðbrögð verða ef til vill til þess að gerandi og samstarfsmenn líti á þau sem staðfestingu á hversu ómögulegur þolandi sé.

Við ákveðnar aðstæður geta þó hvatvís viðbrögð borið árangur sérstaklega á byrjunarstigi.

Að takast á við einelti og greina það

Mikilvægt er fyrir þolanda að átta sig á því hvað er að gerast í eineltinu og hann verður að fara vel yfir hvað hefur gerst og hvað er að gerast áður en hann ákveður hvað best sé að gera.

Fyrstu skrefin sem þolandi getur tekið

Hugleiddu þín fyrstu skref. Hvað treystirðu þér til að gera, hvað finnst þér skynsamlegt og hvað heldurðu að beri árangur? Það sem virkar vel í einu tilfelli getur haft þveröfug áhrif í öðru.