EINELTI Á VINNUSTAÐ

Úrræði

Það eru nokkur úrræði fyrir starfsmenn þegar þeir fá vitneskju um eða þá grunar að einelti sé í gangi. Eðlilegast er að ræða við yfirmenn um atburði og atvik sem starfsmaður hefur orðið vitni að, því ábyrgð þeirra er mikil og mikilvægt að þeir séu upplýstir. Lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum kveða skýrt á um að einelti skuli ekki líðast á vinnustöðum. Vinnueftirlitið hefur samið reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað og hefur eftirlit með því að vinnuverndarlögum og reglum sé framfylgt.

Vinnueftirlitið

Hlutverk Vinnueftirlitsins

 • Að veita leiðbeiningar og ráðgjöf í vinnuvernd.
 • Að stuðla að heilsusamlegu og öruggu starfsumhverfi til frambúðar.
 • Vinnueftirlitið tekur ekki beinan þátt í úrlausn mála innan vinnustaða.
 • Að vera hlutlaus aðili í vinnuvernd.

Forsendur þess að Vinnueftirlitið komi að eineltismálum

 • Að um ámælisverða eða síendurtekna háttsemi sé að ræða.
 • Starfsmaður sem málið varðar sé enn starfandi.
 • Málið hafi verið tekið upp á vinnustaðnum án viðunandi lausnar.
 • Aðstæður séu slíkar að ekki sé hægt að taka málið upp innan vinnustaðarins.
 • Skriflegt leyfi frá starfsmanni/umboðsmanni um að nota megi upplýsingar frá viðkomandi í samskiptum eftirlitsmanns við vinnustaðinn.

Vinnueftirlitið kemur ekki að málum

 • Ef verið er að vinna að lausn málsins innan vinnustaðarins.
 • Ef deilur snúast um kjaramál.
 • Ef deilur eða hagsmunaárekstrar eru milli stjórnenda og starfsmanns/tveggja eða fleiri einstaklinga, nema þær séu viðvarandi eða endurtaki sig kerfisbundið og falli þá undir skilgreininguna um einelti.

Kvörtun – eyðublað

Vinnueftirlitið er með staðlað eyðublað sem starfsmenn geta sent ef þeir vilja koma kvörtun á framfæri til Vinnueftirlitsins.

Kvörtun um einelti á vinnustað

Fyrirmæli, ábendingar og eftirfylgni Vinnueftirlitsins

 • Fyrirmæli um áhættumat og áætlun um forvarnir varðandi félagslegan aðbúnað á vinnustað.
 • Almenn viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti.
 • Ráðstafanir fyrirtækisins til að bregðast við meintu einelti.
 • Fyrirmæli varðandi aðstoð eða úttekt utanaðkomandi ráðgjafa.
 • Fyrirtækið skal senda Vinnueftirlitinu tilkynningu um úrbætur innan ákveðins tíma, viðmiðið er 3 mánuðir.
 • Eftirlitsmaður fer í endurskoðun um 6 mánuðum eftir fundinn á vinnustaðnum.

Viðurlög við einelti

Brot á ákvæðum reglugerðar 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum geta varðað ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, það er sektarákvæði.

 • Um kæruheimildir á grundvelli þessarar reglugerðar fer skv. 98. gr. laga, hægt er að kæra ákvörðun Vinnueftirlitsins.

Tjón af völdum eineltis getur verið bótaskylt. Samkvæmt almennum skaðabótareglum ber atvinnurekandi bótaábyrgð gagnvart starfsmönnum sínum ef þeir verða fyrir tjóni, sem m.a. má rekja til slæms aðbúnaðar á vinnustað. Starfsmaðurinn ber hins vegar sönnunarbyrði um orsakir tjónsins og umfang þess.

Sönnun í eineltismálum getur verið erfið og nauðsynlegt að þau, sem fyrir verða, tryggi að atvinnurekanda eða fulltrúum hans berist með öruggum og formlegum hætti vitneskja um það sem í gangi er. Hér geta trúnaðarmenn starfsmanna og starfsmenn stéttarfélaga gegnt veigamiklu hlutverki. Tjón starfsmanns getur bæði verið beint fjárhagslegt tjón og miski.

Getur starfsmaður brugðist við ef atvinnurekandi eða fulltrúar hans sinna ekki skyldum sínum?

Almennt ber starfsmönnum ekki skylda til þess að vinna við aðstæður sem geta verið heilsu þeirra skaðlegar. Því má spyrja hvort starfsmenn geti neitað að vinna við aðstæður þar sem einelti er liðið eða með aðila sem stendur fyrir einelti á vinnustað, enda grípi atvinnurekandi ekki til nauðsynlegra aðgerða til þess að fá ástandinu breytt. Úr þessu hefur ekki verið leyst fyrir íslenskum dómstólum en dómaframkvæmd erlendis styður það sjónarmið.

Hvert getur þolandi leitað?

Talsmönnum stéttarfélaga er umhugað um að félagsmönnum líði vel í vinnunni og ef orð eða athafnir valda þeim mikilli vanlíðan og grafa undan sjálfstrausti þeirra þá er reynt að styðja við bakið á þeim. Aðstoðin getur verið margvísleg t.d. geta starfsmenn stéttarfélagsins haft samband við stjórnendur til að leita lausnar sem er ásættanleg fyrir alla. Félagsmaður getur einnig fengið lögfræðiaðstoð ef sýnt þykir að brotið hafi verið alvarlega á honum.

Trúnaðarmenn stéttarfélaga geta upplýst þolendur um rétt sinn og leiðbeint þeim hvert þeir geta leitað en þeir taka ekki að sér að leita lausna fyrir þolanda. Hins vegar geta þeir upplýst stjórnendur og viðkomandi stéttarfélag um alvarleg samskiptavandamál sem verða á vinnustað.