EINELTI Á VINNUSTAÐ

Skilgreining eineltis

Einelti er hugtak sem heyrist æ oftar vegna þess að fólk er almennt meðvitaðra en áður um rétt sinn og ófeimnara að láta í ljós ef því líður illa. Hins vegar er stundum talað um einelti þegar fólk á í samskiptavandamálum.

Einelti á vinnustað er þegar einn eða fleiri ráðast aftur og aftur á starfsmann, oftast einn starfsmann, og eftir ákveðnu mynstri. Ofbeldið getur bæði verið andlegt og líkamlegt. Eitt einstakt tilvik telst ekki einelti heldur er um tíðar árásir að ræða sem hafa staðið í einhvern tíma.

Þolandi stendur höllum fæti gagnvart geranda eða gerendum. Hann á erfitt með að verja sig og standa á rétti sínum. Hann ræður ekki við þessar níðingslegu og óvinveittu aðstæður og getur ekki eða kann ekki að taka á fjandsamlegum samskiptum geranda og samstarfsmanna eins og niðurlægingu, auðmýkingu, útilokun og einangrun.

Einelti er fjandsamleg einangrun þolanda frá starfshópnum.

Aðgerðarleysi og afskiptaleysi samstarfsmanna er hluti af einelti og gerir það mögulegt.

Algengt er að gerendur og starfsmenn kenni þolanda um eineltið: „Hann er svo leiðinlegur að hann biður um að vera lagður í einelti.“ Þetta er rangt.

Þolandi veit oft og tíðum ekki hver aðdragandi eineltis er og af hverju verið er að níðast á honum.

Munur á einelti og deilu er að deila er á milli álíka sterkra einstaklinga eða hópa, en þegar einelti á sér stað nær gerandi algjörlega yfirhöndinni. Aðdragandi deilu er skiljanlegur þeim sem takast á en þegar einelti á sér stað veit þolandi oftast ekki af hverju byrjað var að taka hann fyrir.