EINELTI Á VINNUSTAÐ

Fánýtistilfinning í starfi

Vinnan og öll verkefni miðast við að sýna þolanda fram á að það sé ekki þörf fyrir hann. Verkefni sem hann fær eru tilgangslaus, eru langt fyrir neðan hans hæfileika og þekkingu eða eru of erfið og óviðráðanleg. Það er leitað að mistökum og mikið gert úr þeim. Stöðugt er haldið fram að viðkomandi standi sig ekki nógu vel. Þess vegna finnst þolanda ekki vera þörf fyrir sig á vinnustaðnum og jafnvel að allir séu betur komnir án hans. Ásakanir eru um að hann hafi hvorki áhuga né hvata til vinnu, þ.e. sé latur og reyni að koma sér undan því sem hann á að gera, sé stöðugt á netinu eða í tölvuleikjum o.s.frv.

Erfitt að sinna starfi

Verkefnin eru allt of mörg og engan veginn mögulegt fyrir þolanda að sinna þeim. Upplýsingum er haldið til baka og þeim er jafnvel eytt til að skaða þolanda. Hann fær ekki þau verkfæri sem hann þarf við vinnuna. Verkefni eru tekin fljótt af honum og látin til annarra ef þau vefjast eitthvað fyrir honum. Þetta gerir þolanda ómögulegt að sinna starfi sínu.

Dæmi:

Pálína er sölumaður í raftækjaverslun. Hún telur sig góðan starfskraft, er vel að sér um allar þær vörur sem hún selur og leggur sig fram um að veita viðskiptavinunum góða þjónustu. Síðastliðna mánuði hefur hún hins vegar orðið fyrir stöðugum ásökunum frá verslunarstjóranum um vanrækslu í starfi og leti. Hann fullyrðir að hún viti aldrei hvort hlutirnir séu til, leyti aldrei á lagernum og ætlist bara til að aðrir sinni vinnunni hennar. Það sé engin afsökun þótt mikið sé að gera.

Pálína hefur margoft rifist yfir því að vörur séu seint og illa skráðar inn í tölvuna. Þær séu jafnvel settar á rangan stað og því ómögulegt fyrir hana að sinna sínu starfi sem skyldi. Síðasta mánuð hefur verslunarstjórinn algerlega tekið hana fyrir. Ekkert sem hún gerir er nógu gott. Hann er jafnvel farinn að skipta sér af þegar hún er að sinna viðskiptavinum. „Pálína mín, þetta er örugglega bara nýkomið inn á lager. Heldurðu að þú ættir ekki að fara og athuga það?“ Pálínu finnst að hún sé ein á móti öllum í fyrirtækinu og lendir upp á kant við allt og alla nánast á hverjum degi.

Hvað myndir þú gera í sporum Pálínu til að taka á málunum?