EINELTI Á VINNUSTAÐ

Hvað einkennir gerendur?

Samstarfsmönnum finnst oft eins og gerendur séu öruggir með sig og hafi hlutina á hreinu. Svo er þó ekki alltaf og sá sem níðist á öðrum getur verið öruggur með sig og sitt. Það eru ólíkar ástæður fyrir því af hverju einhver leggur annan í einelti.

Það getur verið hefð fyrir því í fyrirtækinu að taka starfsmenn fyrir og litið á það sem skemmtun að níðast á og hæðast að öðrum. En það getur líka verið að gerandi óttist um stöðu sína eða kunni ekki að sýna sig og sanna á annan hátt en með einelti. Sumir gerendur reyna að sýna mátt sinn og megin og fá útrás fyrir valdþörf sína með því að níðast á öðrum.

Ýmsar ástæður eineltis:

  • Skortur á viðurkenningu.
  • Ótti við að verða sér til skammar og að athlægi.
  • Ótti við að aðrir nái meiri árangri.
  • Ótti við uppsagnir og tilfærslur.
  • Ótti við að vanhæfni verði uppgötvuð.
  • Ótti við nýjungar og að geta ekki valdið þeim.
  • Ótti við að tapa stöðu innan hópsins.
  • Ótti við að vera ekki miðpunktur.
  • Frekar að sparka í aðra en að fá spark.

Framkoma geranda

Framkoma geranda getur verið mjög mismunandi og þarf ekki að vera kvikindisleg og óvingjarnleg eins og maður ímyndar sér kannski ósjálfrátt.

Í samskiptum getur gerandi meðal annars verið:

  • vingjarnlegur
  • nákvæmur
  • næmur á tilfinningar
  • opinn
  • óútreiknanlegur
  • viðkvæmur
  • heillandi og skemmtilegur
  • kurteis, formlegur og smámunasamur
  • skyngugur á líðan annarra
  • hreinskilinn úr hófi og alltaf sagt hvað honum finnst
  • óútreiknanlegur, vingjarnlegur í dag en fjandsamlegur á morgun
  • fordómafullur

Hegðun stjórnanda sem geranda

Lýsing á mögulegri hegðun stjórnanda sem er gerandi og hvað hugsanlega getur verið á bak við gerðir hans.

Hegðun geranda Ótti geranda
Er með stöðugar aðfinnslur og gagnrýni á starfsmann og ætlast til að hann hlýði í einu og öllu. Stjórnandi óttast að ekki sé tekið mark á sér og að hann hafi hvorki áhrif né völd.
Situr á upplýsingum. Óttast að tapa þekkingarforskoti og það ógnar tilveru hans.
Gerir mikið úr eigin hæfileikum og lítið úr árangri starfsmanns. Óttast að vera illa að sér, vanhæfur eða álitinn heimskur.
Óraunhæfar kröfur um afköst. Óttast að standa sig ekki í starfi gagnvart stjórnendum og eigendum.

 

Hegðun starfsmanns sem geranda

Lýsing á mögulegri hegðun starfsmanns sem geranda gegn vinnufélaga og hvað hugsanlega getur verið á bak við gerðir hans.

Hegðun geranda  Ótti geranda
Ræðst á og er með baktal og áróður gegn samstarfsmanni. Óttast að samstarfsmaður verði mikils metinn og að hann falli sjálfur í skuggann og standist ekki samanburð.
Gagnrýnir stöðugt samstarfsmann sem stendur sig vel og gefur í skyn að hann sé algjör framapotari. Óttast yfirvofandi hagræðingaraðgerðir og uppsagnir.
Gerir grín að skoðunum samstarfsmanns og skemmtir sér á hans kostnað. Óttast að vera ekki miðpunktur í hópnum og vera ekki vinsæll meðal vinnufélaga.
Bendir á mistök og fullyrðir að starfsmaður standi sig ekki. Óttast að gengið verði fram hjá sér og að kostir og hæfileikar sínir verði ekki metnir.

 

Hegðun starfsmanns sem geranda gegn yfirmanni

Lýsing á mögulegri hegðun starfsmanns sem geranda gegn yfirmanni og hvað hann mögulega óttast.

Hegðun geranda  Ótti geranda
Gerir lítið úr ákvörðunum yfirmanns fyrir framan aðra. Óttast að geta ekki haft völd og áhrif á gang mála.
Fylgir ekki fyrirmælum yfirmanns. Óttast að geta ekki ráðið sér nógu mikið sjálf/ur.
Gerir líf yfirmanns óbærilegt með sögusögnum. Óttast of miklar eða of litlar kröfur.
Hefur samband við framkvæmdastjóra til að gera lítið úr ákvörðunum yfirmanns síns. Óttast tilfærslu eða uppsögn og því reynt að lítillækka yfirmann.

Hugleiðingar fyrir gerendur

Ef þú hefur lagt aðra í einelti þá hugleiddu hverjar afleiðingar geta orðið ef þú heldur því áfram:

  • Það er hægt að lögsækja þá sem leggja í einelti.
  • Þú mátt reikna með að verða fordæmd/ur síðar fyrir það sem þú gerðir.
  • Orðspor þitt getur fylgt þér á aðra vinnustaði
  • Yfirmaður þinn getur verið tregur til að gefa þér meðmæli.
  • Samviskan á kannski eftir að naga þig síðar meir.