EINELTI Á VINNUSTAÐ

Birtingarmyndir eineltis

Einelti birtist í mörgum myndum og atburðir sem virðast ekki merkilegir í fyrstu geta samt verið ofbeldi. Einelti getur verið líkamlegt ofbeldi og orð og athafnir sem sjást og heyrast. Einnig getur það verið óbeint andlegt og sálrænt ofbeldi og útilokun frá öðru starfsfólki. Það getur verið erfitt að átta sig á hvað er að gerast þegar eineltið er ekki sýnilegt. Þess vegna er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir líðan starfsfólks og andrúmsloftinu á vinnustaðnum.

Ef eineltið er ekki sýnilegt getur verið erfiðara að sporna við því en engu að síður verður að grípa inn í á markvissan hátt til að koma í veg fyrir að starfsmaður sé niðurlægður.

Sífelld, neikvæð gagnrýni og athugasemdir

Stöðug og niðrandi gagnrýni á hæfileika þolanda til að tjá sig, hvernig hann talar, málfræði og orðalag hans jafnvel leiðrétt. Hins vegar er honum ekki svarað þegar hann lætur skoðun sína í ljós. Faglegir hæfileikar eru dregnir í efa og þess vegna ekki leitað álits hjá honum. Einkalíf hans er dregið inn í umræður á niðurlægjandi hátt til að þagga niður í honum. Starfsmenn neita að hlusta á þolanda af því að þeim finnst hann annað hvort muldra og tuða ofan í barm sér eða vera of hvatvís og hávær.

Dæmi:

Páll vinnur á bílaverkstæði. Starfsfélagar hans, sérstaklega Finnur, setja stöðugt út á hvernig hann vinnur. „Þú gerir allt svo öfugt“, fær hann gjarnan að heyra. Þeir kalla hann yfirleitt „Snillinginn“ og gáfu honum jafnvel þannig sérmerkta kaffikrús. Til að losna við athugasemdirnar hefur Páll reynt að fá verkefni sem hann getur unnið einn.

Páll er frekar óframfærinn, en á síðasta starfsmannafundi ákvað hann að biðja sérstaklega um verkefni fyrir sig einan. Eins og svo oft áður, greip Finnur fram í fyrir honum: „Ohhh, Palli þarf auðvitað að fá sérverkefni. Hann er svo fínn með sig að hann getur ekki unnið með okkur hinum, strákar!“ Páli finnst ástandið óþolandi en veit ekki hvernig hann getur breytt því.

Hvað myndir þú gera í sporum Páls til að taka á málunum?